Í faðmlögum einkavæðingar- Röðin komin að heilbrigðiskerfinu!

 Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei farið dult með þá stefnu sína að einkavæða eigi heilbrigðiskerfið, enda eru sjúkdómar og heilbrigði fólks örugg tekjulind fyrir þá sem vilja græða á samfélaginu. Geir Haarde fagnaði sérstaklega stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna því nú væri hægt að ganga enn lengra í einkavæðingu heilbrigðismála.   Aðferðafræðin  er kunn, fyrst er beitt fjársvelti, skapað ótryggt ástand, starfsfólki og stjórnendum att saman. Úti á landi eru sveitarstjórnir látnar bítast. Þegar hér er komið er allt opið fyrir umbyltingar, uppsagnir, niðurskurð á þjónustu   „úthýsingu „verkefna og einkavæðingu sem alltaf var markmiðið.Þessa umræðu þekki ég vel úr fjárlaganefnd Alþingis. 

Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni undir hagræðingarhnífinn

Heilbrigðisráðherra hefur nú tilkynnt um grundvallarbreytingar á skipulagi heilbrigðismála víða  á landsbyggðinni  án nokkurs samráðs við starfsfólk eða heimamenn. Allt undir yfirskini hagræðingar. Markmiðið er þó augljóst  niðurskurður á starfsemi og skerðing á þjónustu.  Aðdragandi þessa er búinn að vera nokkur. Fyrst  var  lögum breytt og stjórnir sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana lagðar niður. Þar með var skorið á þau beinu tengsl sem íbúarnir höfðu við skipulag heilbrigðsimála í héraði sínu.  Valdið var fært til framkvæmdastjóra sem heyra beint undir ráðherra. Stjórnendur eru því  í algjörri úlfkreppu og eiga oft fárra kosta völ.  

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Frammi fyrir þessu standa m.a. Húnvetningar, Skagfirðingar, Vestlendingar og fleiri heilsugæsluumdæmi. Sérstök ástæða er til að hvetja samtök sveitarfélaga á svæðinu og einstakar sveitarstjórnir til að vera mjög á verði. Það á að krefjist raunverulegs samráðs áður en boðaðar breytingar ganga í gegn. Góð heilbrigðisþjónusta hefur verið aðdráttarafl til búsetu ekki síst á landsbyggðinni. Litlar líkur eru á að boðaðar breytingar efli nærþjónustuna. Hitt mun líklegra að niðurskurður og skert þjónusta fylgi í kjölfarið.

 

Herförin gegn Landsspítalanum

 Heilbrigðisráðherra Sjálfsstæðisflokksins hefur hafið  herför gegn Landspítalanum. Með skertum fjárveitingum til spítalans átti að búa í haginn fyrir stórfellda einkavæðingu. Verkþættir og heilar deildir hafa verið boðnar út og hópuppsagnir fylgja í kjölfarið.  Stjórnendum og starfsfólki  er att saman. Athyglisvert er að tilboð einkaaðila í þjónustu á Landakotsspítala voru mun hærri en Landspítalinn hefur fengið greitt fyrir þá þjónustu. Þótt ráðherrar Samfylkingarinnar falli auðsveipir í faðm Sjálfstæðisflokksins  og  styðji þessar aðgerðir trúi ég ekki að hinn almenni kjósandi flokksins geri það.  

Stöndum vörð um félagslega heilsugæslu landsmanna

Vinstri- græn standa nú sem fyrr vaktina til varnar.  Í ljósi atburða síðustu daga og hve hart er gegnið fram í að gjörbylta heilbrigðiskerfinu hefur  flokkurinn sent frá sér harðaorða ályktun þar sem segir m.a.:„ Mikilvægustu heilbrigðistofnunum landsmanna er haldið í fjárhagslegri spennitreyju, vinnuálag fer vaxandi á þegar undirmönnuðum deildum, vöktum er breytt í óþökk starfsfólks og nú er hafin handahófskennd einkavæðing einstakra þátta heilbrigðisstarfseminnar eða heilla deilda. Afleiðingar alls þessa birtast nú í hópuppsögnum sem að óbreyttu munu lama ómissandi kjarnastarfsemi í heilbrigðisþjónustunni … Vinstri hreyfingin grænt framboð mun ekki láta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar komast þegjandi og hljóðalaust upp með að vinna óbætanleg skemmdarverk á heilbrigðiskerfinu og flæma þaðan burtu í stórum stíl mestu verðmæti þess, starfsfólkið. Heilbrigðiskerfið og mannauður þess er margfalt mikilvægara en einn hrokafullur ráðherra, það er dýrmætara en heil ríkisstjórn“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband