Föstudagur, 15. febrúar 2008
"Allir vildu Lilju kveðið hafa"
Þegar nú öll spjót standa á Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni í Reykjavík vegna REI málsins og svikunum í Orkuveitu Reykjavíkur er hollt að rifja upp hverjir eru hinir raunverulegu sökudólgar í því máli. Það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þeir Geir H. Haarde og Árni Mathiesen sem ákváðu að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. og voru ekkert að leyna áformum sínum því opinberum aðilum var fyrir fram meinað að bjóða í hlutinn.Þar með voru hjólin sett af stað á einkavæðingarvagninum sem átti fyrst að ná til Hitaveitu Suðurnesja, síðan til Orkuveitu Reykjavíkur og þá Landsvirkjunar.
Sigur Svandísar Svavarsdóttur
Það er hollt að velta fyrir sér hvar Orkuveita Reykjavíkur væri nú sett ef ekki hefði komið til vaskleg barátta Svandísar og félaga í Reykjavík, dyggilega studd af VG félögum á Akranesi og í Borgarbyggð, meðeigendum í veitunni. Bak við luktar dyr vorur örfáir einstaklingar að hirða og skipta á milli sín tugum milljarða króna af eigum almennings. Þótt menn vilji nú kalla það slys og klúður og bera við minnisleysi þá var hinn einbeitti brotavilji augljós og gjörningurinn hlaut velþóknun stjórnmálamanna á æðstu stöðum. Það var hinsvegar fulltrúi Vinstri grænna í borgarstjórn, Svandís Svavarsdóttir sem ein sagði stopp. Og það var ekki aðeins ránið á Orkuveitu Reykjavíkur sem var stöðvað heldur einnig einkavæðingaráform Geirs Haarde og Árna Mathiesen á orkuauðlindum landsmanna. Það kemur því ekki á óvart að vissrar afbrýðisemi gæti gagnvart Svandísi svo sem hjá félögum hennar í öðrum flokkum, er ekki uggðu að sér.
Ber enginn ábyrgð?
"Græðgisvæðingin fékk kjaftshögg og það kom hökt í þessa taumlausu ágengni græðginnar í íslensku samfélagi"
sagði Svandís Svavarsdóttir sem hefur leitt af einurð og festu afhjúpun á þeirri svikamyllu sem sett var í gang til að komast yfir eigur Orkuveitu Reykjavíkur. Þótt ákall um fyrirgefningu og loforð um að gera þetta aldrei aftur hljómi vel verður að hafa í huga, að er hér um að ræða eina stærstu aðför síðari tíma að hagsmunum almennings. Þess vegna þarf nú að fylgja því eftir að hlutaðeigandi stjórnmálamenn, embættismenn og einstaklingar sæti ábyrgð gjörða sinna.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.