Trúverðugleiki Geirs H. Haarde hefur minnkað!

 Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins getur ekki gert upp við sig að svo stöddu hvort hann styður oddvita flokksins í Reykjavík til borgarstjóra. Hann telur hinsvegar að trúverðugleiki Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar hafi minnkað. Hik og skoðanaleysi formanns Sjálfstæðisflokksins hefði einhverntíma þótt saga til næsta bæjar. 

Einkavinavæðing orkugeirans!

Staðreyndin er hinsvegar sú að REI hneykslið er runnið undan rifjum Geirs Haarde og Árna Mathiesen og hófst með sölu ríkisins á hlut þess í Hitaveitu Suðurnesja. Vilhjálmur Þ. framfylgdi óskum flokksforystunnar um einkavinavinavæðingu orkugeirans. Hann sást hinsvegar ekki fyrir í leynimakkinu, hefur orðið margsaga í málinu og getur nú dregið fleiri með sér í fallinu. Stefna Sjálfstæðisflokksins  er hins vegar óbreytt, orkugeirann  á að einkavæða þar sem því verður við komið, hvort sem er á sveitastjórnarstigi eða í gegnum Alþingi.

Hvar eru „gömlu gildi"  Sjálfstæðisflokksins?

Átökin í Sjálfstæðisflokknum virðast óumflýjanleg. Þau standa milli þeirra sem vilja halda í öflugt velferðarkerfi og gömul gildi Sjálfstæðisflokksins eins og „stétt með stétt” annars vegar og hinsvegar þeirra sem vilja hoppa upp á vagn brasksins og einkavinavæðingarinnar.

Einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu er lýsandi dæmi um stefnu Geirs H. Haarde og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra. Hins vegar veit þjóðin hvað hún vill því samkvæmt Gallup könnun frá í sept. sl. er um 60% þjóðarinnar andvíg einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni en einungis um 30% fylgjandi.  

Hvað gerist næst?

Hik Geirs H. Haarde  í borgarstjóramálinu er vísbending um veika stöðu hans innan flokksins Getur einhver hugsað sér að uppgjörið milli Ingu Jónu Þórðardóttur og Björns Bjarnasonar um forystu í borgarstjórn og prófkjörsátök Guðlaugs Þórs og Björns fyrir síðustu alþingiskosningar sé eitthvað sem gleymist?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband