Mánudagur, 11. febrúar 2008
Ráðuneytum breytt í kosningaskrifstofur
Brýnt er að setja skýr ákvæði í lög, sem banna ráðherrum og fráfarandi ríkisstjórn að skuldbinda ríkissjóð síðustu mánuði fyrir kosningar, án fyrirfram samþykkis Alþingis.
Það er Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið. Því blöskraði mörgum borðaklippingar, loforð og viljayfirlýsingar einstakra ráðherra fyrir síðustu kosningar.
Skuldbindingar upp á 14 milljarða króna skrifuðu ráðherrarnir upp á frá því að fjárlög voru samþykkt í des. 2006 og framtil kosninga 10. maí.
Þetta kemur fram í skýrslu frá forsætisráðherra sem þingflokkur Vinstri grænna óskaði eftir í haust.
Eru þá ótalin loforðin sem ekki voru skriflega staðfest, en gefin í krafti ráðherradómsins.
Beðið var um upplýsingar um samninga, viljayfirlýsingar og fyrirheit ráðherra um fjárframlög til einstakra verkefna í aðdraganda kosninga á sl. vori.
Vissulega voru sumir þessara samninga með stoð í lögum en oftara en ekki voru þeir gerðir án nokkurra fjárheimilda. Var þá gjarnan sett með smáaletrinu: " með fyrirvara um samþykki Alþingis".
Alþingi situr uppi með að draga í land kosningaloforð fráfarandi ráðherra.
Þau loforð keyrðu um þverbak á síðastliðnu vori.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.