Þjóðin krefst breytinga!

Ljóst er að forystumenn Sjálfsstæðisflokksins munu þrjóskast við í  kvótamálinu. Þverskallast  við áliti Mannréttindanefndar Sameinuðuþjóðanna. Heldur skal keyra áfram ranglátt kerfi sem  á skömmum tíma er að takast að  rústa bæði fiskistofnum og sjávarbyggðum vítt og breytt um landið. Uppsagnir hundruða fiskvinnslufólks og sjómanna hrína ekki. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lúta áfram boðvaldi LÍÚ-forystunnar.

Vinstri græn

Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarlaganna og að ný lög um það efni taki gildi 2010. Við leggjum áherslu á að allir stjórnmálaflokkar og hagsmunaðilar í sjávarútvegi og fiskvinnslu komi að þeirri endurskoðun. Í greinargerð með frumvarpinu er lýst grunnhugmyndafræði Vg um sjálfbærar fiskveiðar og vinnslu, en auk þess er vísað til stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum.

Frjálslyndir

Í kjölfar álits Mannréttindanefndar Sameinuðuþjóðanna um að núgildandi kvótakerfi bryti í bága við mannréttindi hafa þingmenn Frjálslynda flokkssins og Vinstri grænna lagt fram þingsályktunartillögu sem kveður á um  að íslenskum stjórnvöldum beri að virða álit Mannréttindanefndarinnar.

Kúvending Framsóknar

Guðni Ágústsson lýsti því, sem formaður Framsóknarflokksins, að það ætti að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu í samræmi við dóminn.

Samfylkingin lofar en gerir ekkert

Samfylkingin lagði þunga áherslu á endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins í síðustu kosningabaráttu. Karl V. Matthíasson, talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og varaformaður sjávarútvegsnefndar, segir á heimasíðu sinni: „Það er augljóst mál að við verðum að breyta lögunum um stjórn fiskveiða. Ekki aðeins vegna úrskurðar mannréttindanefndar, heldur líka vegna þess að kerfið er að brenna sjálft sig upp.“

Þjóðin krefst breytinga

Skoðanakönnun Gallup frá í ágúst sýndi að 72% þjóðarinnar er andvígt núverandi kvótakerfi en einungis 15% eru ánægð. Það er því ljóst að yfirgnæfandi meirihluti þjóðainnar og þingmanna á Alþingi vill breytingar á kvótakerfinu og að farið verði að áliti Mannréttindanefndar Sameinuðuþjóðanna.

Sjálfstæðisflokkurinn  "fúll á móti"

Sjálfstæðisflokkurinn er einn á móti og vill óbreytt kerfi. Hvað dvelur Samfylkinguna að krefjast í ríkisstjórn aðgerða í málinu? Ætlar hún eina ferðina enn að beygja sig fyrir Valdinu?

Á „mannréttindanefnd“ LÍÚ að ráða?

Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmaður sendir alþingismönnum hvatningu í grein í Morgunblaðinu 30. jan: „Þeir [alþingismenn] eru samkvæmt 48.grein stjórnarskrárinnar eingöngu bundnir við sannfæringu sína og það er tími til kominn að þeir fari að átta sig á því að það eru þeir sem fara með löggjafavald á landi hér en ekki „mannréttindanefnd“ LÍÚ.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband