Sunnudagur, 3. febrúar 2008
Frábært þorrablót á Hofsósi
Það brást ekki þorrablótið á Hofsósi í gærkveldi frekar en áður. Undanfarin mörg ár höfum við hjónin sótt þessa ágætu héraðsskemmtun og deilt góðri kvöldstund með gömlum vinum og nágrönnum.
Þorrablótin einkum til sveita eru alveg einstakar hátíðir þar ungir sem aldnir njóta samverunnar.
Þar þekkist ekkert "kynslóðabil".
Hátt í 400 manns var samankomið í Höfðaborg á Hofsósi í gærkvöldi. Maturinn heimatilbúinn og fjölskyldur komu saman með trogin full af þjóðlegu góðgæti.
Í bland voru þó "nútíma" réttir svo fjölskyldan gæti öll sameinast um trogið þrátt fyrir ólíkan smekk.
Þorrablótsnefnd sem tilnefnd var á síðasta blóti sá um skemmtiatriðin. Öll eru þau heimaunnin, leikþættir og gamansöngvar. Allt í einu verða allir flinkustu leikarar og söngvarar og fjölþættir hæfileikar einstakra nefndarmanna koma áhorfendum oft þægilega á óvart.
Beðið er í spenningi eftir annál byggðarlagsins.
Þar er tínt til hið skoplega sem á dagana hefur drifið hjá íbúunum á nýliðnu ári. Það þykir heiður af því að vera sýndur í skopspegli þorrablótsnefndarinnar. Hinsvegar líður þeim ver sem ekki eru nefndir.
Þorrablótin eru nú haldin með þessum hætti vítt og breytt um landið. Unglingar koma heim úr skólum og brottfluttir reyna að komast heim til að njóta þessa fagnaðar með vinum og fjölskyldum.
Ég óska öllum þorrablótsgestum vítt og breytt um landið góðra þorrahátíða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.2.2008 kl. 20:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.