Laugardagur, 26. janúar 2008
Pólitískur harmleikur í Reykjavík
Framganga forystumanna Sjálfstæðisflokksins við myndun nýs meirihluta í Reykjavíkurborg hlýtur að vekja fordæmingu. Eitt er að beita pólitískum klókindum og annað að beita óheilindum .
Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins segir "maður vonar auðvitað að það gangi núna...".
Augljós aðkoma Geirs að þessari meirihlutamyndun er umhugsunarverð, ekki síst vegna vinnubragðanna sem beitt er.
Svo virðist sem hinn almenni borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi lítið vitað af málinu fyrr en það var um garð gengið.
Þau stóðu frammi fyrir orðnum hlut og það var engin gleði í svipnum þegar hópurinn stóð frammi fyrir myndavélunum. Lái þeim hver sem vill.
Ólafur F. Magnússon lýsti því vel í fréttaviðtali hvernig hann var blekktur og honum talin trú um að ekki væri spurning um hvort heldur hver myndi ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn .
Öllum þeim sem vildu vita mátti vera ljóst að ekkert pólitískt bakland var fyrir myndun þessa nýja meirihluta enda var það ekki einusinni kannað.
Íbúar Reykjavíkur sitja nú allir uppi með pólitískan harmleik sem stýrt er af æðstu stjórnendum Sjálfstæðisflokksins og ekki sér fyrir endann á.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.1.2008 kl. 13:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.