Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæða Íbúðalánasjóð

Ný skoðanakönnun sýnir að yfir 80% þjóðarinnar er jákvæður gagnvart Íbúðalánasjóði. Staðfest er þar með að almenningur styður barátta okkar Vinstri grænna, sem vörðum Sjóðinn af hörku, þegar aðrir flokkar vildu leggja hann niður. Fram kemur mjög skýr vilji fólks fyrir því að Íbúðalánasjóður starfi áfram í óbreyttri mynd og hefur hlutfallið aldrei verið jafn hátt.

Vilja Íbúðalánasjóð feigan ?

Skemmst er að minnast aðfarar Sjálfstæðisflokksins ásamt þáverandi formanni Framsóknarflokksins, Halldórs Ágrímssonar, að Íbúðalánasjóði, sem hafði nærri gengið frá sjóðnum. Dyggilega studdir af hægri armi Samfylkingarinnar töldu þeir brýnasta málið fyrir fjármálalífið í landinu að leggja Íbúðarlánasjóð niður. Einkavæddir bankarnir áttu að fá veð í öllu íbúðarhúsnæði landsmanna.

Húsnæði er mannréttindi

Barátta okkar Vinstri grænna fyrir Íbúðalánasjóði þótti gamaldags og heyra fortíðinni til en þjóðin er okkur sammála.

Það er jú grunnmannréttindi að eiga þak yfir höfuðið og hátt hlutfall eigin húsnæðis er styrkur íslenska velferðarkerfisins. Leiguhúsnæði á hagkvæmum kjörum á að standa til boða fyrir þá sem kjósa. Ekki trúi ég því að  menn vildu sjá íbúðareigendur á Íslandi í sama vanda og í Bandaríkjunum. En ógætilegar lánveitingar bankanna með veði í búðarhúsnæði skekur nú fjármálin þar vestra sem teygir anga sína hingað.

Óábyrg stefna bankanna

Sú ábyrgðarlausa stefna bankanna hér að lána upp í topp út á íbúðarhús til almennrar eyðslu  hleypti af stað þenslu án innstæðu. Þessi aðgerð bankanna bitnar nú hart á skuldsettum heimilum sem ráða illa við greiðslubyrðina þegar harðnar á dalnum.

VG vill efla Íbúðalánasjóð

Koma þarf nú strax til móts við ungt fólk sem berst fyrir að fá þak yfir höfuðið. Hækka þarf vaxta- og húsaleigubætur en þær hafa staðið í stað undanfarin misseri.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra má ekki  láta undan kröfum frjálshyggjuaflanna í Sjálfstæðisflokknum og hægri arms Samfylkingarinnar. Ráðherrann verður að standa með okkur í VG og verja Íbúðalánasjóð.

 

Sjá líka:

Grein mín um þetta efni í Morgunblaðið þarsíðasta sumar.

Grein Ögmundar Jónassonar um Íbúðalánasjóð síðasta sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband