Álver í Helguvík á dagskrá ríkisstjórnarinnar?

Það vakti athygli í umræðunni um efnahagsmál á Alþingi í dag að forsætisráðherra nefndi ítrekað áform um álver í Helguvík. Bjóst hann  reyndar ekki við að ákvörðun um nýtt álver myndi kæta þingmenn Vinstri grænna, sem er alveg hárrétt hjá ráðherranum. 

 Nefndi Geir H. Haarde álverið sérstaklega  þegar hann ræddi um hugsanlegar  aðgerðir  til nýrrar innspýtingar í efnahags og atvinnulíf þjóðarinnar.  Virðist ríkisstjórnin þar við sama heygarðshornið, óbreytt stóriðjustefna. 

Ég er sammála forsætisráðherranum að ákvörðun um nýtt álver mun hafa mikil áhrif en er ekki sama sinnis og hann að það sé jákvæð og rétt ákvörðun. Nóg er komið af einhæfri stóriðju.  Brýnna er að efla fjölbreytt atvinnulíf  og byggð í landinu öllu sem sem hefur orðið að taka á sig þungar byrðar vegna þenslu og hávaxtastefnu ríkisstjórnarnnar. 

 

Hvar er „Fagra Ísland“ og Samfylkingin

 

Í ljósi orða forsætisráðherra um álver í Helguvík velti ég fyrir mér hvað er orðið af þeim fyrirheitum Samfylkingarinnar sem fólust í  „Fagra Ísland“ og  stóriðjustoppinu sem lofað var fyrir kosningar.

Og hvað ætli umhverfisráðherrann Þórunn Sveinbjarnardóttir segi um mengunarkvóta og losunarheimildir fyrir nýtt álver? Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru brýnasta mál alþjóðasamfélagsins. Það liggur ljóst fyrir að við Íslendingar verðum að minnka losun gróðurhúsalofttegunda til muna ef við ætlum í framtíðinni að geta staðið við alþjóðlegar skuldbindingar í þessum efnum. Fleiri álver eða olíuhreinsunarstöðvar rúmast ekki innan þeirra marka sem Ísland verður að stefna að. Við Íslendingar verðum núna eins og aðrar þjóðir að breyta um kúrs með sjálbæra þróun og ábyrgð í umhverfismálum og náttúruvernd að leiðarljósi. 

Kjósendur Samfylkingarinnar hljóta að krefja ráðherra  sína um skýr svör.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband