Hækkum laun á leikskólum

Mánaðarlaun bankastjóra Seðlabankans hækka um 100 þúsund.

Sl. vor samþykkti meirihluti bankaráðs Seðlabankans að hækka laun bankastjóra sinna  um 100 þús. krónur á mánuði frá 1. maí og svo aftur um 100 þús. krónur um áramótin. Rök meirihlutans , þ.e. Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks voru þau að samkeppni væri mikil við aðrar fjármálastofnanir um hæfa stjórnendur. Mátti skilja það svo að  við ættum á hættu að  tapa seðlabankastjórunum okkar til annarra banka ef við hækkuðum ekki laun þeirra. Nú er ábyrgð  seðlabankastjóra mikil  og eðlilegt að þar séu greidd góð laun

Seðlabankastjóri Bandaríkjanna með lægri laun

Samkvæmt fréttum Rúv frá 8. júní sl. verða heildarmánaðarlaun aðalbankastjórans  um 1800 þús eftir hækkun en laun annarra bankastjóra tæp 1.600 þús. frá 1. jan 2008.

Ragnar Arnalds, fulltrúi VG í bankaráðinu greiddi atkvæði gegn hækkuninni. Hann benti á að laun seðlabankastjóra í nágrannalöndum okkar  væru svipuð og hér á landi fyrir hækkun. Vitnaði hann til þess að jafnvel seðlabankastjóri Bandaríkjanna væri  með lægri laun en okkar .

Árangurstengd laun bankastjóra ?

Nú eru laun stjórnenda fjármálafyrirtækja á markaði  árangurstengd . Ljóst er því að laun margra stjórnenda  munu lækka í kjölfar  tekjutaps þessara „samkeppnisaðila“ og  hremminganna á fjármálamörkuðum undanfarið. Rökin fyrir launahækkunum seðlabankastjóranna um síðustu áramót gætu því að verið brostin.

Sé meirihluti bankaráðs Seðlabankans sjálfum sér samkvæmur mun hann endurskoða launin og jafnvel lækka laun bankastjóranna  en ekki hækka þau.  

Leikskólakennarar eða bankastjórar?

Geir Haarde forsætisráðherra kallaði í áramótaávarpi sínu eftir hófsemd í launakröfum og beindi þá máli sínu til láglaunafólks , starffólks á elli- og hjúkrunarheimilum, sjúkrahúsum og leikskólum.

En afar erfitt hefur reynst að manna þessar stofnanir á undanförnum misserum.  Svo sannarlega er kominn tími til að hækka laun og bæta kjör þessara starfshópa svo um munar.

Ábyrgð leikskólakennara er ekki síður mikil en bankastjóranna og samkeppni um starfskrafta þeirra.

Ég vil að leikskólakennarar fái frekar launahækkun en bankastjórar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband