Föstudagur, 11. janúar 2008
Réttlæti í sjávarútvegi
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að þær grunnforsendur sem íslenska kvótakerfið byggir á standist ekki. Þetta er enn ein staðfestingin á því að endurskoða þurfi íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið frá grunni. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að markmið núverandi laga um stjórn fiskveiða hafa ekki náðst og reyndar hafa lögin aldrei verið fjær markmiðum sínum en einmitt í dag.
Þvert á markmið núgildandi laga um stjórn fiskveiða benda rannsóknir til að helstu nytjastofnar sjávar standi höllum fæti.
Þvert á markmið laganna hafa lögin í reynd stuðlað að óhagkvæmri nýtingu sjávarauðlinda með tilheyrandi skuldasöfnun og erfiðleikum í fiskveiðum og vinnslu.
Þvert á markmið laganna hefur störfum í sjávarútvegi fækkað og starfsöryggi þeirra sem byggja afkomu sína á greininni hefur sjaldan verið verra.
Þvert á þau markmið laganna að efla byggð í landinu öllu hefur jafnt og þétt dregið úr mætti sjávarbyggðanna um land allt með tilheyrandi byggðaröskun og fólksflótta.
Í stefnuskrá Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum um brýnar aðgerðir segir m.a:
Markmið nýs stjórnkerfis fiskveiða er að stuðla að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum helstu aðila innan sjávarútvegsins , þ.e. útgerðar og fiskvinnslu, verkafólks og sjómanna, sjávarbyggða og samfélagsins alls.
Snemma í haust lögðum við þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Björn Valur Gíslason varaþingmaður og Atli Gíslason fram frumvarp til laga þess efnis að þegar í stað yrði hafin heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og að ný heildarlög tækju gildi eigi síðar en 1. september 2010. Sjá frumvarpið hér: http://www.althingi.is/altext/135/s/0157.html
Í þjóðarpúlsi gallup frá í ágúst kom fram mikil og vaxandi ónægja með núverandi kvótakerfi í stjórn fiskveiða. 72% lýsti sig andvíg en einungis 15% fylgjandi.Það er vonandi að niðurstaða Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna gefi málinu byr undir báða vængi og auki þrýsting á að stjórnvöld axli ábyrgð sína í málinu og alþingi vindi bráðan bug að því að breyta fiskveiðistjórnunarlögunum eins og við þingmenn Vinstri grænna höfum krafist.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.1.2008 kl. 08:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.