Föstudagur, 4. janúar 2008
Bakarísbærinn Blönduós
Det bor en bager ved Nørregade.
Han bager kringler og julekager.
Han bager store, han bager små
Han bager nogle með sukker på.
Þessi vísa er eitt það fyrsta sem mörg okkar lærðu í dönsku. Og víst er um það að bakaríin sem voru í hverju þorpi og hverjum bæ eru sveipuð ákveðnum ljóma í minningunni en einnig í raunveruleika dagsins. Bakarísilmurinn seiðir til sín langt utan af götu. Það þótti ekki ónýtt að vera í vinfengi við bakaríið og fá sykursnúða eða vínarbrauð í stað viðviks. Ég hygg að mörgum ferðalangnum sé farið sem mér að leita uppi bakarí með kaffikrók. Bakaríin á Sauðárkróki, Siglufirði, Ísafirði og Stykkishólmi eru góð dæmi um staði þar sem freistandi er að kíkja inn. Eins er með Kaffi Krútt á Blönduósi.
Ímynd Blönduóss
Eitt fyrsta iðnfyrirtækið á Blönduósi var bakarí Valdimars Péturssonar bakarameistara, stofnsett 1936. Og hvort heldur það var Valdi bakari, Gústi bakari, Garðar bakari, Ingibjörg í bakaríinu eða Húni þá hafa brauð, kringlur og kökubakstur borið hróður Blönduóss vítt um land.
Enn í dag er bakaríið á Blönduósi einn af þeim stöðum sem setja svip sinn á bæinn og gefa honum persónulegt og hlýlegt yfirbragð. Og þau Guðmundur og Helga hafa greipt sig inn í bæjarímyndina eins og fyrri bakarar á Blönduósi. Það er svo notalegt að geta skotist inn í Kaffi Krútt, fengið sér brauðkollu, kleinuhring eða franska vöfflu með rjúkandi kaffibolla. (Kaffið er mjög gott og eitt það besta við hringveginn, trúið mér, ég hef komið víða). Eftir stutt spjall við aðra gesti og bakarafjölskylduna er stigið sporlétt út með fjallabrauð, rúnstykki og Vilkopakka undir hendinni.
Það skiptir allt máli
Það var ánægjulegt að sjá oft í sumar troðið út að dyrum í litlu bakarísbúðinni. Ekki fer nú mikið fyrir auglýsingum en gott orðspor er besta kynningin. Einmitt þessi litlu bakarí með kaffikrók draga drjúgum að og stöðva ferðafólk á þeytingi um landið. Þessi orð eru sett fram til að lýsa ánægju með eljuna og þjónustuna hjá eigendum Krútts og hvetja bæði heimafólk, gesti og gangandi til þess að njóta og standa vörð um þennan elsta iðnað á Blönduósi. Bakaríið og Kaffi Krútt á Blönduósi er einmitt snar þáttur í ímynd bæjarins og samfélagsins alls, jafnt inn á við sem út á við. Okkur þykir vænt um þessa ímynd. Heimabakarí skiptir miklu málu fyrir sköpun ímyndar og eflingu ferðaþjónustu í þéttbýlunum vítt og breitt um landi. Þar skiptir allt máli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.