Kirkjan er hornsteinn

Kirkjan hefur verið einn grunnþátta okkar þjóðskipulags nánast frá upphafi Íslandsbyggðar. Með henni höfum við lifað bæði súrt og sætt í meir en 1000 ár. Mikilvægt er  að hún nái að bregðast við breyttum kröfum á hverjum tíma en traust bönd milli ríkis og kirkju gefa samfélaginu öryggi sem okkur er mikilvægt. Trúfrelsi og virðing fyrir öðrum trúarbrögðum er sjálfsögð og slíkt á að vera kennileiti okkar Íslendinga í hvívetna.

 

Kirkjan og safnaðarstarfið eru  hornsteinar fjölbreytts menningarlífs víða, ekki  hvað síst í minni samfélögum úti á landi. Má þar sérstaklega nefna söng og tónlistarlíf ,  barna og unglingastarf  þar  sem fjölskyldan öll er virkur þáttakandi í, að ógleymdu starfi  eldri borgara. Fjöldi barna, unglinga og fullorðinna um land allt syngur í kirkjukórum eða tekur þátt í tónlistar- og öðru uppbyggilegu menningarlífi í kringum kirkjurnar.

 

Fjölþætt ábyrgð um land allt

Kirkjustaðirnir eru einstæðar vörður í sögu, atvinnu-  og menningarlífi þjóðarinnar og samofnir örlögum hennar. Kirkjurnar vítt og breitt um landið er byggingarsögulegir dýrgripir og búnaður þeirra er hluti af listasögu landsins. Þessum verðmætum verður  að halda til haga og gera sýnileg í nútímanum. Þarna ber þjóðkirkjan og við öll víðtækar samfélagsskyldur. 

 

Kirkjusagan og kirkjustaðirnir eru samofin þeim verðmætum sem reynt er miðla og  laða fram t.d. í menningar tengdri ferðaþjónustu. Kirkjustarfið er  því mikilvægur hlekkur í byggðamálum og ómetanlegt í öllu félags-  og menningarlífi . Það er mikilvægt er að við  höfum þessa fjölþættu ábyrgð í huga.

 

Hátíðarkveðjur á jólum

Það  á að vera ófrávíkjanleg regla að borin sé virðing fyrir ólíkum trúarbrögðum. En um leið eigum við að fagna þeirri merku menningar- og trúararfleifð sem kristnin  hefur gefið okkur.  Þjóðkirkjan gegnir fjölþættu  hlutverki í okkar samfélagi og mun gera áfram vonandi um langa hríð. 

 

Sterk fjölskyldubönd og gott nágrannasamfélag  eru einkenni fagurs mannlífs. Vinir og ættingjar, já allir kallast á með friðarkveðju : „Gleðileg jól“! Ég óska landsmönnum öllum gleðilegrar jólahátíðar  og farsældar á nýju ári. Með þökk fyrir  hvatningu og góðan stuðning á árinu sem er að kveðja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband