Hvalfjarðargöng - Þjóðvegur án veggjalda

Með opnun Hvalfjarðarganga þann 11. júlí 1998 varð að veruleika samgöngumannvirki sem ekki var á dagskrá af hálfu ríkissjóðs og framkvæmdin var ekki á þágildandi samgönguáætlun. Spölur ehf. vann að verkefninu á grundvelli sérstakra laga og samnings við ríkissjóð sem heimiluðu félaginu að fjármagna, byggja og reka Hvalfjarðargöng. Opinberir aðilar áttu og eiga meirihluta í Speli ehf. og kveðið er á um að ríkinu verði afhent göngin til eignar þegar þau hafa verið borguð upp, sem gert var ráð fyrir að yrði á 20 árum.

Öllum er kunnugt hvernig félaginu hefur tekist að uppfylla þau markmið sem sett voru í upphafi. Árangurinn af starfi félagsins er sá að umferð hefur aukist verulega milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands og jákvæð áhrif vegtengingarinnar er langt umfram væntingar. Aukin umferð hefur gefið meiri tekjur en spáð var og það hefur gert mögulegt að lækka veggjöldin og sömuleiðis var árið 2005 samið um endurfjármögnun lána á hagstæðari kjörum.  Að óbreyttu mun Spölur hafa greitt lán sín að fullu 2018 og göngin þá renna til ríkissjóðs eins og samningar og lög gera ráð fyrir.  

Hvalfjarðargöngin eru ekki lengur val

Í upphafi var gengið út frá því að vegfarendur hefðu val um að aka Hvalfjarðargöng eða Hvalfjörðinn. Reynslan er sú að vel yfir 90% vegfarenda nota Hvalfjarðargöng og líta svo á að göngin séu eðlilegur hluti af vegakerfi landsmanna. Þrátt fyrir að Hvalfjarðargöng hafi verið byggð á ákveðnum forsendum um að veggjald greiddi upp stofnkostnað þá hafa forsendur breyst að því leyti að göngin eru eina vegamannvirkið á Íslandi þar sem sérstakri gjaldtöku er beitt.. Jafnræðissjónarmið kalla því á að gjaldtöku þessari verði aflétt.

Málefni Hvalfjarðarganga voru mjög til umræðu í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og var þá einkum vakin athygli á því hversu mikil mismunun fælist í því fyrirkomulagi að innheimta veggjöld í Hvalfjarðargöngum, einum samgöngu­mannvirkja.

Afnám gjaldtökunnar

Ýmsar leiðir koma til greina til að ná því markmiði að gera umferð um göngin gjaldfrjáls. En að mati okkar er  skynsamlegasta leiðin er sú að ríkið leiti samninga um  yfirtöku á einkahlutafélaginu Speli og þar með öllum skuldbindingum þess. Með því væri lúkningu þeirra samninga sem gerðir voru við Spöl ehf. árið 1995 flýtt.  Þá yrði samhliða tekin ákvörðun um að fella niður veggjöldin í göngunum en í vegáætlun hvers árs yrði gert ráð fyrir framlagi til að standa undir rekstri ganganna eins og öðrum vegamannvirkjum og greiðslu áhvílandi lána vegna framkvæmdarinnar til ársins 2018. Nú munu lán Spalar ehf. nema um 3,9 milljörðum, en þar af er m.a. lán við lífeyrissjóði um 2,7 milljarðar króna og lánstími þeirra til ársins 2018.  Rekstrarkostnaður Hvalfjarðarganga eru um 200 mkr. á ári, en niðurfelling veggjalds myndi lækka kostnað af rekstri ganganna.

Hvalfjarðargöngin eru hluti almenna þjóðvegakerfis landsins

Þó nauðsynlegt hafi verið talið á sínum tíma að fjármagna Hvalfjarðargöng  með gjaldtöku eru nú breyttir tímar.Fyllilega er tímabært að endurskoða gjaldtökuna um Hvalfjarðargöng in. Þau eru löngu orðin hluti almenns vegakerfis  og því ber að leita allra leiða til að lækka gjaldið verulega eða fella alveg niður. Það er ekkert jafnræði í því að íbúar Akraness, Borgarfjarðar, Vesturlands og reyndar allra sem eru háðir tíðum ferðum um göngin séu skattlagðir sérstaklega til fjármögnunar almennra þjóðvega í landinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband