Halldór Brynjúlfsson frá Brúarlandi- Minning

Það hafa gengið sviptivindar yfir land og þjóð síðustu daga. Haustlægðirnar ganga yfir hver af annarri og himnarnir grátið. Og eins og með einni stormrokunni er góður félagi, vinur og baráttujaxl rifinn á burt. Og það gerist svo fyrirvaralaust að við stöndum eftir agndofa og orðlaus. 

Halldór Brynjúlfsson frá Brúarlandi á Mýrum lauk vinnudeginum 18. október síðastliðinn í orðsins fyllstu merkingu. Þegar halda átti heim að loknu dagsverki vék hann sér til hliðar og var allur.

Halldór Brynjúlfsson var einn af stofnendum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og leiddi lista flokksins í Vesturlandskjördæmi við Alþingiskosningarnar 1999. Var Halldór  aðeins hársbreidd frá  því að fara þing. En hlutur VG á Vesturlandi undir forystu hans færði kjördæminu annað sæti á landsvísu næst á eftir kjördæmi formannsins í Norðurlandi eystra.

Það var mikil gæfa fyrir flokk sem sótti fram á grunni nýrra en sígildra hugsjóna að eiga slíkan baráttumann sem Halldór var.

 

Halldór var einn af forystumönnum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs bæði í héraði og á landsvísu til síðasta dags.

Mér er minnistæð ferð okkar um Borgarfjörð fyrir kosningarnar 2003. Þá leiddi hann mig á nokkra bæi sem ekki voru þó allir í alfaraleið. „Þú verður að heilsa upp á húsfreyjuna  á þessum bæ og  bóndann á næsta bæ“. Á einum bænum bjuggu tveir aldraðir menn . „ Hér förum við út í fjárhús og þú verður að fara höndum um kindurnar og segja eitthvað fallegt. Ærnar sem þeir sýna þér eru þeirra stolt.“  

 Í þessari ferð fann ég svo glöggt    fólkið, samfélagið sem Halldór  leiddi mig um, voru  dýrustu helgidómar hans. Dóri var eins og heimilismaður á hverjum bæ.

 

Halldór var afar heilsteyptur einstaklingur, rökfastur og fylginn sér en jafnframt sanngjarn.Hann var sterkur fundarmaður, talaði skýrt, en hnyttinn og hreif með sér áheyrendur. Það var hlustað á mál hans og hann  hafði einstakt lag á að hvetja menn til dáða.

Fyrir aðeins örfáum dögum vorum við saman á félagsfundi  Vinstri grænna í Borgarnesi þar sem rætt var um græðgina og óheilindin í kringum Orkuveitu Reykjavíkur. Fagnað var djarfri framgöngu Vinstri grænna í því máli. Við meirihlutaskiptin í Reykjavík gæfist tækifæri til að stöðva græðgina  og einkavæðinguna innan orkugeirans og brýnt væri að ganga þar hreint til verks. Hvatningarorð Halldórs voru skýr og afdráttarlaus að venju.

Samþykkt var ályktun á fundinum  um að fella þegar í stað brott heimild ríkisins til að einkavæða og selja Deildartunguhver, einn vatnsmesta hver í heimi, en hann er ein af orkulindunum sem er á sölulista ríkisstjórnarinnar. Fór vel á að á síðasta fundi sínum með okkur félögunum nyti ein dýrasta auðlind og náttúrudjásn Borgarfjarðar hvatningar hans og ákalls um vernd. 

 

Nú er Halldór Brynjúlfsson allur, langt umfram aldur. Það er höggvið stórt skarð í liðssveitina. En minningin og hvatningarorðin lifa.

 

Halldór var mikill fjölskyldumaður og heimili þeirra Ástu stóð ávallt opið. Á ég margar góðar minningar frá ráðagerð og skrafi yfir kaffibolla í stofunni að Böðvarsgötu. Stórfjölskyldan á Brúarlandi heldur vel saman. Þar fór Halldór  fremstur í flokki.

Nú verður þar skarð fyrir skildi en minningin um góðan dreng lifir.

 

Við  sendum Ástu og fjölskyldu  svo og stórfjölskyldunni á Brúarlandi innilegar samúðarkveðjur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband