Um „hefndir á pólitískum andstæðingum“

Leiðari Morgunblaðsins sl. fimmtudag fjallar um pólitískar uppsagnir fólks. Eru rakin nokkur nýleg dæmi um mannabreytingar í opinberum störfum og þeirri spurningu varpað fram hvort um pólitískar hefndir sé að ræða. Vafalaust hafa þeir sem Morgunblaðið nefnir þó fengið þessi störf sín á póltískum forsendum á sínum tíma. Ekki ætla ég hér að verja pólitískar ráðningar. Hins vegar eru brottvikningar pólitískra andstæðinga úr opinberum störfum án haldbærra raka mikið alvörumál.

Í leiðaranum er greint frá þekktum aðferðum við að bola andstæðingum úr starfi, s.s. hagræðingu og skipulagsbreytingar: „Í eina tíð var það siður í íslenzkri pólitík, að þeir sem völdin höfðu hverju sinni beittu þeim til þess að flæma pólitíska andstæðinga úr stöðum eða koma í veg fyrir að þeir fengju vinnu.“

 

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði

Í tilefni af leiðara Morgunblaðsins varð mér hugsað til kosningabaráttunnar á Ísafirði fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og framgöngu meirihlutans þá og að kosningum loknum. Samfylking, Vinstri græn og Frjálslyndir stóðu saman að framboði Í-listans. Sjálfstæðisflokkurinn leiddi áfram meirihlutann í bæjarstjórn að kosningum loknum. Mikil ábyrgð hvílir á minnihluta ekki síður en meirihluta í stjórn hvers bæjarfélags og hafa fulltrúar Í-listans í bæjarstjórn og nefndum veitt meirihlutanum öflugt og málefnalegt aðhald. 

 

Aðstoðarskólastjóri og bæjarfulltrúi

Einn bæjarfulltrúi Í-listans, Jóna Benediktssdóttir, var jafnframt í trúnaðarstöðu hjá sveitarfélaginu, aðstoðarskólastjóri við grunnskólann. Auk dugnaðar og hæfni á sviði æskulýðs- og skólamála hefur hún þótt mjög skelegg í baráttu sinni fyrir því sem betur má fara í stjórn bæjarfélagsins. Svo virðist sem skyndilega hafi komið upp mikil hagræðingarþörf í starfsemi bæjarfélagsins sl. vor. Nú skyldi sparað svo um munaði. Starf aðstoðarskólastjóra var metið óþarft og lagt niður. Beitt var þekktum rökum: hagræðing, skipulagsbreytingar og sparnaður. Og þegar ein ástæðan brást virðist önnur fundin til.

Ætla mætti að farið yrði gætilega í að leggja niður starf eins af kjörnum leiðtogum bæjarfélagsins, reyndar í stjórnarandstöðu, án rækilegs rökstuðnings og náins samráðs.

Vísað er til bókana í bæjarstjórn Ísafjarðar og skrifa um þetta mál hjá Bæjarins Besta, bæði á vef og blaðaútgáfu.

 

Á öndverðri skoðun í pólitík

Að sjálfssögðu er mikilvægt að sveitarfélög leiti hagsýni í rekstri sínum.

En aðgát skal höfð og því er tekið undir varnaðarorð og  vangaveltur Morgunblaðsins um misbeitingu pólitísks valds. Lokaorð áðurnefnds  leiðara blaðsins 25. okt. sl. ættu að vera öllum þörf áminning en þar segir: „Það verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort ný kynslóð stjórnmálamanna freistast til þess að taka upp gamla ósiði og koma fram hefndum á pólitískum andstæðingum.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband