Föstudagur, 4. janúar 2008
Mun Samfylkingin standa í lappirnar?
Sveltistefna fyrrverandi ríkisstjórnar gagnvart skólum, heilbrigðisstofnunum og öldunarheimilum birtist strax í uppgjöri ríkisstofnana og ráðuneyta fyrstu þrjá mánuði ársins.
Margar þeirra eru nú þegar komnar í umtalsverðan halla gagnvart ríkissjóði og ljóst að þær hvorki geta né mega draga svo úr lögboðnum verkefnum sínum, að jöfnuður náist fyrir árslok.
Þetta kom fram á fyrsta vinnufundi nýkjörinnar fjárlaganefndar sl. mánudag, þegar fulltrúi fjármálaráðuneytisins kynnti fyrir nefndinni stöðu einstakra stofnana miðað við fjárheimildir fyrstu þrjá mánuði ársins. Sameinuð stjórnarandstaða Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra benti á við síðustu fjárlagagerð að svo myndi fara, því að nauðsynleg fjárþörf. stofnana væri ekki mætt á fjárlögum. Nægir að minna á skertar fjárveitingar til Fjölbrautarskólans á Sauðárkróki, Héraðshælisins á Blönduósi og Heilbrigðisstofnunar Hvammstanga. Ástæða er til að standa sérstakan vörð um fjárveitingar til þessara stofnana.
Ólík viðbrögð við ákalli rektorsins á Akureyri
Stefna og viðskilnaður ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í menntamálum endurspeglaðist vel í orðum rektors Menntaskólans á Akureyri við skólaslit 17. júní sl. Þar varpaði rektorinn fram þeirri spurningu hvort nauðsynlegt væri að einkavæða skólann til að ná eyrum og velvilja stjórnvalda um nauðsynlegar fjárveitingar til skólastarfsins. Benti hann á að ráðstöfunarfé til skólans hafi verið skert um 30% á ári sl. þrjú ár og slíkt fáist einfaldlega ekki staðist.
Ég lít frekar á þetta sem ákall um hjálp en ósk um einkavæðingu, sagði fulltrúi Samfylkingar í menntamálanefnd og fyrrverandi fjárlaganefndarfulltrúi, Katrín Júlíusdóttir, í fréttaviðtali af því tilefni. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks fagnaði hins vegar því að sveltistefnan í menntamálum biti og að fram komi ósk um einkavæðingu sjálfs Menntaskólans á Akureyri.
Gott samstarf Samfylkingar og Vinstri grænna á síðasta þingi
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna í fjárlaganefnd áttu með sér gott samstarf á síðasta kjörtímabili. Skilað var sameiginlegu nefndaráliti og breytingatillögum sem fyrst og fremst lutu að velferðarmálum. Börðumst við hlið við hlið fyrir meira gagnsæi í fjárlagagerðinni og því, að framkvæmdavaldið virti ábyrgð fjárlaganefndar og Alþingis.
Við fulltrúar þessara flokka í fjárlaganefndinni stóðum einnig þétt saman gegn hinni hörðu einkavæðingarstefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í mennta- og heilbrigðismálum og öðrum velferðarmálum. Félagshyggja Framsóknar var löngu fokin út í hafsauga í þeirri samstjórn.
Skólar- heilbrigðisstofnanir- eldri borgarar í forgang
Ég vil ég ógjarnan sjá að fulltrúar Samfylkingarinnar leggist beint í volgt ból Framsóknar sem viljalaus hækja Sjálfstæðisflokksins í einkavæðingu og niðurskurði fjármagns til velferðarstofnanna. Er ég fullviss um að þar mæli ég einnig fyrir munn fjölda Samfylkingarfólks sem vill sjá flokk sinn standa í lappirnar gagnvart Sjálfstæðisflokknum.
Sem fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd mun ég styðja fulltrúa Samfylkingarinnar í að ná fram sameiginlegum baráttumálum okkar frá fyrri þingum um bætt vinnubrögð nefndarinnar, sjálfstæði Alþingis gagnvart ráðuneytunum, breyttri forgangsröðun og auknu fjármagni til skóla, heilbrigðisstofnana og öldrunarþjónustu. Vonast ég fastlega eftir að þess sjáist stað við gerð næstu fjárlaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.