Föstudagur, 4. janúar 2008
Hvers vegna vill ríkisstjórnin fórna landbúnaðarskólunum?
Ég hygg að flestir landsmenn séu stoltir af Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Hólaskóla - Háskólanum á Hólum í Hjaltadal. Þetta eru einir elstu skólar landsins, stofnaðir 1889 og 1882. Þeir standa nú í miklum blóma og eru ótvíræð flaggskip menntasetra í dreifbýli á Íslandi. Með breyttri menntastefnu um 1980 var gerð hörð hríð að landbúnaðarskólunum. Þeir þóttu úreltir og rétt væri að steypa þeim inn í hið samhæfða og einsleitna framhaldsskólakerfi. Hólaskóla var reyndar lokað í tvö ár í þessari hrinu en var endurreistur 1981 með pólitískri ákvörðun fyrir þrýsting frá velunnurum hans. Búnaðarskólarnir hafa náð að standa vörð um tilveru sína og sjálfstæði jafnframt því að þróast í fjölþættar viðurkenndar háskóla- og rannsóknastofnanir.Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks áformar nú að breyta stjórnsýslu Búnaðarskólana og flytja þá frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálráðuneytis. Ég var skólastjóri á Hólum í Hjaltadal 1981 til 1999 og þekki vel þessa baráttu. Mér er nær að fullyrða að hvorki Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri né Hólaskóli væru við lýði með þeirri reisn sem þeir eru í dag ef þeir hefðu t.d. heyrt undir menntamálráðuneytið.
Sérstaða og náin tengsl skólanna við grasrótarsamfélagið
Styrkur þessara skóla er sérstaða þeirra og náin tengsl við grasrót dreifbýlisins. Þeir heyrðu fyrst undir atvinnuvegaráðuneytið og síðar undir landbúnaðarráðuneytið og nutu þess. Samtök bænda og fjöldi velunnara stóðu vörð um þá. Þeir eru ekki venjulegir skólar í skilningi teknókrata peningalegrar hagræðingar. Þetta eru staðir, fjölhliða mennta- og menningarstofnanir landsbyggðarinnar og þjóðarinnar allrar. Þeir eru lögbýli með fjölbreyttan búrekstur. Ég minnist þess veturinn 1999 þegar sett voru ný lög um búnaðarfræðslu og Hvanneyrarskólinn viðurkenndur sem háskóli og Hólaskóli fékk lagaheimild fyrir sérhæfðu háskólanámi. Þá var gerð hörð atlaga að skólasetrunum og lagt til að flytja landbúnaðarskólana til menntamálaráðuneytis. Leitað var ásjár forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar. Hann spurði þeirrar eðlilegu spurningar hvort eitthvert vandamál væri að hafa þá undir landbúnaðarráðuneytinu, hvort eitthvað gengi illa. Hann vissi að þeir hafa haft þessa stjórnsýslulegu stöðu í 100 ár, hún hefði reynst þeim vel og því þurfti veigamikil rök til breytinga.
Fjöregg landbúnaðarins og byggðanna
Búnaðarskólarnir hafa byggst upp á mjög sérstæðan hátt. Þar hefur farið saman menntun, endurmenntun, rannsóknir og ráðgjöf. Sami aðilinn, sama stofnunin, hefur gjarnan haft alla þessi þætti á hendi. Þessi samþætting hefur reynst öllum hagkvæm. Náin tengsl eru við háskóla og rannsóknastofnanir í nágrannalöndum en einnig mjög bein tengsl við bændur og annað starfsfólk í landbúnaði hér innanlands.Skólarnir hafa sýnt mikinn sveigjanleika og náð að aðlaga sig stöðugt að breyttum aðstæðum svo aðdáun vekur.
Búnaðarskólarnir eru hluti af hinni sterku ímynd landbúnaðarins og dreifbýlisins og merkisberar nýrra tíma í atvinnu og menningarlífi byggðanna, sem borið er traust til. Leyfum þeim að njóta sérstöðunnar.
Heim að Hólum
Hólar og Hvanneyri eru héraðssetur og þungamiðja í fjölþættu menningarlífi stórra byggðaHólaskóli er til vegna sögu og helgi Hóla í Hjaltadal. Saga Hóla er samofin örlögum þjóðarinnar í blíðu og stríðu allt frá er land byggðist og er okkur ómetanleg auðlind. Hólastaður hefur einnig í nútímanum mikið að flytja okkur. En það er best gert með öflugu og fjölþættu starfi þar sem allir þessir þættir leika saman. Við erum öll stolt af reisn Hólastaðar í dag jafnt í þágu Norðlendinga sem þjóðarinnar allrar. Ég skora á ríkisstjórnina að falla frá áformum sínum um að rjúfa meira en aldargömul tengsl landbúnaðarskólanna við atvinnuráðuneyti sitt og samtök bænda. Sú sambúð hefur verið öllum aðilum farsæl. Staða og framtíð Skólasetranna á Hvanneyri og Hólum er mikilvægari en svo að hún lúti örlögum lítilla peða á taflborði pólitískra hrosskaupa
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.