Föstudagur, 4. janúar 2008
Föðurland vort hálft er hafið
Föðurland vort hálft er hafið
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Þessar ljóðlínur í sálmi Jóns Magnússonar koma mér í hug þegar horft er til sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið. Mér verður hugsað til Flateyrar og fleiri byggða þar sem flaggskip nýrrar sóknar undanafarinna áratuga í útgerð og fiskvinnslu voru gerð út. Bæirnir byggðust upp vegna nálægðar við gjöful fiskimið. Arðurinn af útgerðinni og fiskvinnslunni varð að stórum hluta um kyrr á stöðunum, vegleg hús og mannvirki bera stórhug íbúanna glöggt vitni.
Þó eitt sjávarútvegsfyrirtæki hætti rekstri tóku nýjar sókndjarfar hendur við, því að áfram átti byggðin sjálfgefinn rétt til veiðanna, auðlindarinnar. Landsmenn börðust fyrir útfærslu landhelginnar, fyrst í 3 mílur, svo í 4, 12, 50 og loks í 200 mílna fiskveiðilögsögu, allt til að tryggja verndun fiskimiðanna og forgangsrétt íbúa sjávarbyggðanna að auðlindinni. Þar fór saman hagur þorps og þjóðar. Fólk veltir nú fyrir sér til hvers var barist þegar okkar eigin skip sarga grunnslóðina upp í fjörur með enn stórvirkari veiðafærum oft á tíðum en þau skip voru með sem við rákum út úr landhelginni.
Syrtir að í sjávarbyggðunum
Vissulega þurfti að stýra sókninni í auðlindina og tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu hennar. Tekið var upp svo kallað kvótakerfi. Í lögum um stjórn fiskveiða segir:
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
Hjól peningagræðginnar fóru nú að snúast. Íbúarnir í sjávarbyggðum sem áttu með sér sameiginlega sókn í þessa auðlind stóðu allt í einu réttlausir eftir. Veiðiheimildum var úthlutað á einstakar útgerðir. Skömmu síðar voru þær gerðar veðhæfar og gátu gengið kaupum og sölum hvert á land sem var. Lífsbrauð sjávarbyggðanna laut nú lögmálum frumskógarins. Ógnin hangir eins og bert sverð yfir höfðum íbúanna sem eiga ekki meiri rétt en trollin eða krókarnir á veiðarfærum skipanna. Frumburðarréttur íbúanna til auðlindarinnar sem þeir hafa sótt í tugi eða hundruð ára eru í höndum víxlara í musteri mammons. Ætli þeir að fara á sjó verður að greiða víxlaranum 200 krónur í leigu fyrir þorskkílóið eða 3000 krónur fyrir veiðikvótann. Þeir útgerðarmenn sem eru að kikna undan óréttlætinu.
Sá árangur sem átti að nást með fiskveiðistjórnunarlögunum hefur snúist í andhverfu sína. Sjávarbyggðunum blæðir út og þorskstofninn nánast í sögulegu lágmarki að mati Hafrannsóknastofnunar.
Að svara kalli byggðanna strax
Kveða þarf skýrt á um að auðlindir sjávar séu raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda. Setja verður enn frekari skorður gegn samþjöppun veiðiheimilda og tryggja virka nýliðun í greininni. Afnotaréttareðli veiðiheimildanna verði undirstrikað og komið í veg fyrir brask. Nú er flutt út yfir 50 þús. tonn af óunnum fiski í gámum á fiskmarkaði erlendis sem innlendar fiskvinnslur eiga enga möguleika að bjóða í. Tryggja þarf að íslenskar fiskvinnslur fái tækifæri á jafnréttsgrunni til að bjóða í þann fisk sem veiddur er hér á miðunum og ekki fer í eigin vinnslur innanlands.
Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Kambur á Flateyri ákvað fyrir skemmstu að segja upp öllu starfsfólki, um 120 manns, og selja bæði skip og fiskveiðiheimildir. Atvinnuréttur heillar byggðar er seldur. Þetta þurfti ekki að koma á algjörlega óvart. Hér er endurtekning frá sjávarbyggðum vítt og breitt um landið á undanförnum vikum. misserum og árum.
Þingflokkur Vinstri grænna heimsótti Flateyri, Ísafjörð og Bolungarvík sl. föstudag til að kynna sér stöðu mála á vettvangi.
Ljóst er að grípa þarf þegar í stað til kröftugra aðgerða ef koma á í veg fyrir fjöldaflutninga fólks af svæðinu.
Hugarfarsbreyting má til
Eftir 16 ára samfellda stjórn Sjálfstæðisflokks er ljóst að stefnan í fiskveiðistjórnun og byggðamálum hefur beðið algjört skipbrot.
Í bréfi bæjarstjórnar Ísafjarðar til forsætisráðherra 5. mars sl, en afrit var sent þingmönnum kjördæmisins, er kallað eftir hugarfarsbreytingu hjá stjórnvöldum hvað varðar atvinnulíf og uppbyggingu á störfum á Vestfjörðum:
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að algera hugarfarsbreytingu þarf og pólitíska samstöðu hjá stjórnvöldum til að snúa við óheillaþróun síðustu ára ...
Undir þessi orð tek ég heilshugar, en því miður boðar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í stjórnarsáttmála sínum áfram óbreytta Kambsstefnu í málefnum sjávarbyggðanna. Þar bólar ekki á þeirri hugarfarsbreytingu sem bæjarstjórnin óskaði eftir. Við þingmenn Vinstri grænna eru reiðubúnir til samstarfs á þverpólitískum grunni um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og ráðstöfun aflaheimilda þar sem tekið verði á öllum þáttum sjávarútvegsins og unnið á grunni sjálfbærar þróunar í verndun og nýtingu auðlindarinnar með hagsmuni íbúa sjávarbyggðanna í forgang og þjóðarinnar allrar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.