Mánudagur, 2. desember 2024
" Að svíkja sína huldumey"
Sárt að rifja upp - en þegar trúverðugleikinn brestur.
Vg vann stórsigur í kosningum 2009 með nærri 22% atkvæða og 14 þingmenn.
Mynduð var stjórn með Samfylkingu sem var jú reyndar hluti af hruninu 2008.
Þvert gegn grunnstefnu Vg og loforðum var samþykkt að sækja um aðild að Evrópusambandinu.
Ragnar Arnalds var formaður Heimsýnar og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og seinna í Vg.
- Forystumaður vinstrimanna, fullveldissinna og félagshyggjufólks um áratugi:
Fyrsta hreina vinstristjórn lýðveldisins gerði léleg lífskjör, aukið atvinnuleysi og tapað fullveldi að meginverkefni sínu 16. júlí 2009 þegar ríkisstjórnarmeirihlutinn á alþingi samþykkti að senda aðildarumsókn til Evrópusambandsins.
Lífskjör á Íslandi eru langtum betri en í þorra ríkja Evrópusambandsins.
Atvinnuleysi er lægra á Íslandi og hagvöxtur meiri.
Innganga í Evrópusambandið fæli í sér stóraukna skuldabyrði ríkissjóðs vegna björgunarsjóðs evru-ríkja.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir vinnur gegn hagsmunum almennings í bráð og lengd með því að halda ESB-umsókninni til streitu."
Félagshyggja, fullveldi og náttúruvernd eru óaðskiljanleg í stjórnmálum.
Aldrei kom fram að það væri ófrávíkjanleg krafa Samfylkingar fyrir ríkisstjórn á þeim tíma að sótt væri beint um aðild að ESB.
Enda var Samfylkingin í neinni slíkri aðstöðu til þess að setja afarkosti eftir að Vg bjargaði þeim út úr hrunstjórninni.
Hins vegar vissum við um sterkan hug þeirra í þeim efnum og óskum og ýmsir forystmenn VG héldu þessu fram
ESB umsókn var í upphafi þingmannamál en ekki ríkisstjórnarmál hjá Samfylkingu sem hópur af forystumönnum Vg lofuðu illu heilli að styðja.
Síðar vildu forystumenn flokkanna Vg og Samfylkingar gera það að ríkisstjórnarmáli til þess að keyra það í gegn
Þvert á gefin loforð Vg fyrir kosningar.
Var því ESB tillagan aldrei borin upp í ríkisstjórn heldur afgreidd í gegnum þingið.
Enda vitað að einn ráðherra og stefna Vg var algjörlega andvíg umsókn að ESB sem og fjöldi þingmanna flokksins.
Traust og trúnaður er forsenda - óháð málefnum
Ég var sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra á þessum tíma.
Og sem betur fer tókst að stöðva ESB umsóknina áður en varanlegt tjón hlaust af.
En traust til forystu Vg þvarr.
Byggja þarf upp nýja hreyfingu
Nú er verk að vinna að byggja aftur upp hreyfingu, fullveldis, félagshyggju, náttúruverndar, friðar og mannréttinda sem Vg var ætlað að vera og störfuðu vel eftir fyrsta áratuginn.
Brettum upp ermar!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.12.2024 kl. 16:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.