Landssíminn verður aldrei seldur !

Þær eru kostulegar yfirlýsingar ýmissa ráðherra og forystu í stjórnmálum:

"Landsvirkjun verður ekki seld"!

Ég minnist þess þegar ráðherrar strengdu þess heit að Landssíminn verði aldrei seldur, bara sett hf fyrir aftan til þess að "auðvelda rekstrarform"

Landssíminn var seldur skömmu fyrir hrun af ráðherrum sem áður höfðu stigið á stokk. Kaupandinn var "Skipti hf" sem ég held að sé ekki lengur til.

"Við byggjum þjóðarsjúkrahús fyrir söluandvirði Landsimans og byggjum brýr og borum jarðgöng, Sundabraut" sögðu ráðherrar sperrtir.

Einka fyrirtækið Míla var stofnað og fékk til sín grunnnet og fjarskiptakerfi landsmanna.

Þetta verður allt svo miklu hagkvæmara í einkarekstri!

Nokkur ár liðu, allt í einu var kominn franskur alþjóðlegur fjárfestir sem keypti upp Mílu, grunnfjarskiptakerfi landsmanna.

Skorað var á ríkisstjórn og alþingi að beita forkaupsrétti og leysa nú til sín Mílu, grunnfjarskipti landsmanna.

En Mila var seld úr landi. Franskur alþjóðlegur auðhringur á nú fjarskipti kerfi gamla Landssíma Íslands

Vafamál er hvort söluandvirði Símans var nokkurn tíma greitt þjóðinni.

Eitt er víst að þjóðarsjúkrahúsið er enn í byggingu

Jarðgöngin eru ekki enn komin. Sundabraut bíður

 Dugar sennilega ekki að selja Íslandsbanka og Landsbanka  til!

Kannski verður nú að selja Landsvirkjun til þess að fjármagna þjóðarsjúkrahúsið og jarðgöngin?

Orð og yfirlýsingar eru ekki alltaf mikils virði.

Það eru verkin sem tala.

Já, Það stóð aldrei til að selja Landsímann!

 

Birti hér til fróðleiks þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna sölu Landssímans

131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1087  —  729. mál.

Tillaga til þingsályktunar

um þjóðaratkvæðagreiðslu um sölu Landssímans.

Flm.: Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.

    Alþingi ályktar að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um áformaða einkavæðingu og sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands. Kjósendur geti valið milli tveggja kosta:
     a.      Núverandi áforma um sölu á hlut ríkisins í Landssímanum til einkaaðila.
     b.      Að hætt verði við einkavæðingu og sölu Landssímans.
    Alþingi ályktar að stöðva skuli vinnu að sölu Landssímans þar til niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir. Atkvæðagreiðslan fari fram í síðasta lagi samhliða kosningum um sameiningu sveitarfélaga á komandi hausti.
    Dómsmálaráðherra setji nánari reglur um atkvæðagreiðsluna í samráði við allsherjarnefnd, samgöngunefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.       

    Greinargerð.

    Með lögum nr. 75/2001 var sala á öllu hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf. heimiluð en sú heimild hefur ekki verið nýtt að neinu marki enn sem komið er. Þar af leiðandi eru enn fyrir hendi öll nauðsynleg skilyrði til að endurskoða söluáformin og búa þannig um rekstur Landssímans til framtíðar að hann geti haldið áfram að veita öllum landsmönnum góða fjarskiptaþjónustu og stuðla að sem jafnastri stöðu allra byggðarlaga á því sviði.
    Fjölmargar ástæður renna stoðum undir þá hugmynd að frekari framvinda málsins verði ráðin í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu sem allir atkvæðisbærir landsmenn geti tekið þátt í. Landssíminn er að nær öllu leyti í sameign allra landsmanna þar eð hið opinbera fer með 98% hlutafjár í fyrirtækinu. Sala Símans yrði stærsta einstaka einkavæðing sem orðið hefur í almannaþjónustu á Íslandi, hún er að öllum líkindum óafturkræf og mundi án efa setja framtíðarfyrirkomulag fjarskiptaþjónustu á stórum svæðum landsins í mikla óvissu. Við blasir samruni fjarskiptafyrirtækja og fjölmiðla hér á landi svo búast má við því að hefðbundin fjarskiptaþjónusta við almenning verði ekki forgangsmál hjá slíkum samsteypum.
    Mörgum spurningum er ósvarað varðandi það hvernig fara skuli með grunnfjarskiptakerfi Símans, svokallað grunnnet, sem ætlunin er að selja með fyrirtækinu. Þeim hefur verið drepið á dreif með því að það sé tæknilega ómögulegt að ákvarða hversu stór hluti gagnaflutningskerfis Landssímans skuli teljast til grunnnetsins enda er það verkefni sem stjórnmálamenn verða að takast á við. Skilgreining á grunnnetinu er með öðrum orðum pólitísk en ekki tæknileg.
    Fyrirhuguð sala Landssímans er afar umdeild í þjóðfélaginu svo vægt sé til orða tekið. Skoðanakannanir hafa hvað eftir annað sýnt að meiri hluti landsmanna er andvígur sölu Símans með grunnnetinu. Þannig lýsti 61% svarenda andstöðu við söluna í Gallup-könnun í mars árið 2002. Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í febrúar 2005 kváðust rúm 70% þeirra sem afstöðu tóku andvíg sölu grunnnetsins. Ekki var mikill munur á afstöðu fólks eftir því hvort það var búsett á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni; 68% höfuðborgarbúa voru andvíg sölunni en 75% landsbyggðarfólks. Í þjóðarpúlsi Gallup,
sem kynntur var í mars 2005, var meiri hluti aðspurðra andvígur sölu Símans. Greinilegt er að meiri hluti landsmanna er á móti því að Landssíminn verði seldur og mikill meiri hluti er andvígur sölu grunnfjarskiptakerfisins.

Einkavæðingarnefnd vinnur því að sölu fyrirtækisins á vegum ríkisstjórnarinnar í óþökk meiri hluta kjósenda. Þar af leiðandi þykir rétt að um málið fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla þannig að vilji þjóðarinnar komi afdráttarlaust fram og ríkisstjórnin verði bundin af honum.

 

 

 

 


mbl.is Sala á Landsvirkjun stendur ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband