Sorgleg ákvörðun í utanríkismálum

Að loka sendiráði Íslands í Moskvu og vísa sendiherra þeirra hér úr landi er afar óábyrg aðgerð  og stuðlar ekki að friði í samstarfi þjóða.

 Samstarf og samtal lykill að friði

Hlutverk Íslands sem eyríkis í miðju stóru Norður- Atlantshafi er að halda tengslum og virku samtali við öll önnur ríki og þjóðir sem deila mörkum þessa hafsvæðis og að heimskautavæðum  Norðurskautsins.

Með því að slíta á nánast öll diplomatisk samskipti og samtal við Rússland sem ræður  meginhluta Norðurskautsins eru íslensk stjórnvöld að hlaupast undan ábyrgð hvað þessa gríðarlegu hagsmuni varðar til framtíðar.

Persónur sem nú fara með stjórn Rússlands verða ekki eilífar og þeim ráða Íslendingar ekki.

En traust til íslenskra stjórnvalda og ábyrgð hefur laskast í Norðurslóða samstarfi og á alþjóðavísu ef þessi ákvörðun gengur fram.  

Sannarlega eru hörmungarnar og ógnarstríðið í Úkraínu hryllilegt og ber að fordæma en það ástand  mun einhverntíma taka enda með einhverjum hætti.

Að axla ábyrgð í alþjóðasamstarfi

Íslendingar deila fiskistofnum, lífríki hafsins og verndun þess með öðrum þjóðum þar á meðal Rússum og bera þar mikla ábyrgð gagnvart heiminum öllum. 

Ísland hefur haft vissa forystu í samtali og samvinnu þjóða á Norðurslóðum m.a. í umhverfismálum og það verkefni og sú vinna verður nú mikilvægari en nokkru sinni fyrr til framtíðar. 

Það samtal, samstarf og forystuhlutverk verður hjóm eitt ef slitið er á virk tengsl við langstærsta land og þjóð Norðurslóða sem Rússland er.

Metnaður frjáls og fullvalda Íslands

Það ætti að vera metnaður íslensku þjóðarinnar að halda virkum leiðum opnum við sem flest önnur ríki og geta tekið þátt í og haft áhrif á umræðuna og ákvarðanir til góðs beint í krafti síns eigin fullveldis  en ekki í gegnum aðrar þjóðir eða láta herveldi segja sér fyrir verkum í alþjóðasamstarfi.

Á að fara áratugi og aldir aftur í tímann og fela sendiherrum annarra ríkja að fara með hagsmuni Íslands og Íslendinga í Rússlandi og á Norðurslóðum?

Vonandi verða þessi áform afturkölluð 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband