Að gæta orða sinna - Ákall um frið

Við viljum lifa !

Aukin spenna í lífi ungs fólks, já fólki á öllum aldri er  yfirþyrmandi og hrein ógn fyrir samtíðina. 

Stór hluti ungs fólks á Íslandi er sagður þjást af andlegri vanlíðan og kvíða fyrir morgundeginum og framtíðinni.   

Fjöldi unglinga er sagður bera vopn á sér daglega af ótta og kvíða. Voðaverk og aukin fíkniefnaneysla fylgir með og ráðamenn vilja "skera upp herör".

Ekki er gott að lifa í draumaheimi en ekki má heldur hræða úr okkur líftóruna.

"Hamfarahlýnun" er hrópað á torgum  eins og enginn sé morgundagurinn og við látin ganga með djúpa sektarkennd til hvílu á hverju kvöldi!

Er það veganesti fyrir ungt fólk sem óþreyjufullt vill takast á við framtíðina?

Heimsendir er í nánd eru hróp stjórnvalda. 

Stríðsfréttir sem dynja á þjóðinni, fréttir sem við vitum ekkert hvort eru sannar eða ósannar.

-Það fyrsta sem fer í stríði er sannleikurinn-

Hryllilegar lýsingar af hrottaskap og aftökum, grimmd sem er svo rækilega stimpluð inn í veruleika okkar:

"þar sem enginn má undan líta"

Kjarnorkuvopnaðir kafbátar  erlendra stríðsvelda eru kallaðir inn í íslenskar hafnir  til þess að við:

"getum uppfyllt skyldur okkar" í stríðsrekstri "stórvelda" verið með í stríðinu", faðmað stríðsherrana. "Við erum sko með í slagnum".

"Stórvelda" sem eru í vitfirrtu kapphlaupi um völd, yfirráð og auðlindir heimsins og skirrast einskis.

Í fréttum bylur á okkur áróður um að erlend  hryðjuverkasamtök séu að kortleggja sæstrengi til Íslands til þess að klippa þá í sundur á morgun? 

"RÚSSARNIR KOMA"!  var flenni fyrirsögn í Mogganum á dögunum. Ég fyllist sorg yfir gífuryrðum marga ráðamanna.

Kvikmyndir jafnvel með íslenskum leikurum, fyrirmyndum ungs fólks keppast við að hella út sem mestu blóði eða valdbeitingu og  hryllingi, það "selst" best. 

Hver verður munurinn á raunveruleika og óraunveruleika í dagsímynd fólks undir þessum upphrópunum

 Svik og laumuspil og fáránleg auðsöfnun og græðgi nokkurra einstaklinga slítur íslensku þjóðina í fylkingar og myndar þjóðfélagsspennu. Enginn segir eða gerir neitt við því.

Athyglin er dregin að öldruðu fólki sem sagt er að teppi afgreiðslu hraða heilbrigðiskerfisins. "Fráflæðisvandi"

 Svartir gljáandi Audi bílar og leyniskyttur

Næstu daga  verður höfuðborg hins "hlutlausa og friðarsinnaða Íslands  fyllt af hermönnum og leyniskyttum  á götuhornum og húsþökum svo enginn óvitlaus hættir sér út úr húsi.

Almennir borgarar vita ekki hvaðan á þá stendur veðrið.

Dýrustu bílar heims aka um tómar götur Reykjavíkur. 

Flottustu hersýningar á "Torgi hins himneska friðar"  komast ekki í hálfkvist við  gljáandi svörtu Audi bíla "Evrópskra hershöfðingja" á tæmdum götum höfuðborgarinnar Reykjavíkur   "friðarríkisins" Íslands á næstu dögum. 

"Það er svo mikilvægt að vera með á sýningunni" 

Höfuðtilgangur sýningarinnar á "Torginu" er að fá dæmda eina tiltekna þjóð til eilífrar útskúfunar segja pólitíkusar.   

Hvernig sjá þau, sem þetta hrópa í dag  framtíðina með slíka hugmyndafræði að leiðarljósi?.

Fáránleikanum er hreinlega troðið inn um dyrnar hjá fólki sem taldi sig vera óhult.

Fáir íslenskir stjórnmálamenn tala fyrir friði eða beita sér fyrir friði í heiminum. Þeir eru þó til

Byssur og vopnaðar sveitir kallaðar yfir sig og kjarnorkuvopnaðir kafbátar og morðtól lofsungin og hrópað hátt: "Við erum með í hersýningunni".

 -Vonandi erum "við" það langt frá vígvellinum að synir okkar og dætur verði ekki kallaðir út á völlinn - og þess vegna óhætt að vera með gífuryrði!.

Stríðið í Ukraínu er hryllingur, harmleikur  og verður ekki leyst eða bundinn friður  með auknu blóði ungra sona eða dætra. 

Í villtustu deilum kalda stríðsins talaði enginn um að refsa bæri heilum þjóðum með eilífri útskúfun. 

Í seinni heimsstyrjöld datt engum í hug að fordæma alla þýsku þjóðina, almenning fyrir hernað og hryðjuverkin undir forystu Nasista.

Ekki einu sinni eftir blóðugustu átök Heimsstyrjaldarinnar við Stalingrad eða Volgograd, orustu sem stóð frá ág. 1942 til febr. 1943 þar sem sókn herja Hitlers var stöðvuð

- er kannski enn verið að hefna ósigursins þar.

Engum datt í hug að fordæma alla bandarísku þjóðina, fyrir innrásina  og voðaverkin í Vietnam, innrásina og grimmdina  í  Írak eða í Libyu.  Þótt hryðjuverk stjórnvalda í Bandaríkjunum og herstjórninnar þar væru fordæmd.

Veist er að Færeyingum fyrir að verja fiskveiðar sínar og fiskútflutning, undirstöður atvinnulífs þeirra og efnhagslegs fullveldis.

Og þess krafist af Færeyingum  að þeir slíti öllu samstarfi við Rússland, helsta samstarfslands þeirra í fiskveiðistjórnun og útflutningi,- meini þeim að koma í Færeyskar hafnir. 

Þegar framkvæmdastjórn  ESB setti hafnbann og innflutningsbann  á Færeyinga 2012 og 2013 þá sneru Færeyingar auknum viðskiftum til Rússlands

  Voru það ekki stjórnvöld í Danmörku og Evrópusambandinu sem bönnuðu Færeyskum skipum að koma til hafnar á " meginlandinu" m.a. til Danmerkur út af makríl og síld  og steypa þar með efnahag Færeysku þjóðarinnar og kúga af þeim fiskimiðin sín. 

"Að sjálfsögðu verðum við að fylgja lögum og reglum (ESB) en það er mikilvægt að við getum sagt Færeyingum að við erum andvíg þessum aðgerðum", segir Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra Dana" þegar Danir lokuðu dönskum höfnum fyrir Færeyingum 2013 vegna fiskveiða þeirra. 

Voru það ekki stjórnendur ESB sem höfðu samþykkt viðskiptabann og löndunarbann á Ísland með fiskafurðir vegna deilna um makríl við Ísland 2011 til 2013

Það var ekki almenningur þessara landa sem bar fram hótanirnar

Með því ætluðu stjórnvöld þar á bæ að kúga Íslendinga og refsa  til hlýðni og undirgefni og ná auðlinum þeirra. 

Voru það ekki stjórnvöld í Bretlandi og allri Vestur - Evrópu sem skáru á öll viðskifta og fjármálatengsl við Ísland 2008, lokuðu landið af og hindruðu öll vörukaup til landsins og vildu svelta Íslendinga til hlýðni og undirgefni vegna Icesave og gjaldþrota íslensku bankanna.

Minnast menn ekki að lyfjabirgðir landsins voru gjörsamlega á þrotum  t.d.?

Meira að segja önnur Norðurlönd sátu með hendur í skauti og horfðu aðgerðalaus á.

Og hverjir komu okkur til bjargar og rufu þann "hryðjuverka múr", jú stjórnvöld í Færeyjum, Póllandi og  Rússlandi. 

Við sem vorum við stjórnvölinn þá hér á landi  vissum að þetta var ekki sviðsett leikrit  af þeirra hálfu,  heldur grimmasta, helköld alvara forystu þessara ríkja til þess að kúga okkur sem þjóð ,- ekki almenningur þeirra.

Að ekki sé minnst á landhelgisstríðin og fullveldisbaráttu Íslendinga fyrir fiskimiðum sínum

Það er sorglegt að heyra sumt forystufólk  íslenskra   stjórnvalda nú formæla heilli þjóð og hella olíu  og sprengiefni á ófiðarbál hryllilegra stríðsátaka. 

Nú á að tylla sér á tá og hrópa yfir "Torgið": "Dæmum þá", "sprengjum þá" sýnum hver er sterkastur !

Gæfusöm íslensk stjórnvöld ættu að beita sér af alefli í friðarviðræðum og hrópa hátt og kalla á vopnahlé og frið. 

Limósínurnar og Audibílarnir og leyniskytturnar gætu farið til sín heima.

Ákall um frið en ekki blóð

Kannski myndu þau hróp og þau áköll íslenskra stjórnvalda kalla fram auknar líkur á friði, sjálfsánægju og öryggi ungs fólks líka hér á Íslandi sem nú finnst sér vera ógnað og þurfi að bera á sér vopn til þess að verjast náunganum.

Sælir eru friðflytjendur  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband