Sumardagurinn fyrsti í Asparvík 1949

asparvík  Gleðilegt sumar

Veturinn 1948-49 hafði verið óvenju harður, kuldar og mikill snjór. Húnaflóinn var þakinn ís að stórum hluta. Það hafði staðið til að ljúka farskólanum í Kaldrananeshreppi fyrir sumardaginn fyrsta. Skólinn var þá til skiptis á þremur bæjum í sveitinni: Kaldrananesi, í Bjarnarfirði og Asparvík. Síðustu vikurnar í apríl var hann í Asparvík og húsið var fullt af börnum. Þau komu bæði úr Bjarnarfirði og af Bölum allt norður að Kleifum og dvöldu í Asparvík í einskonar heimavist. Helgi Jóhannsson frá Dunkárbakka í Dölum var kennari skólans. Séra Andrés Ólafsson nýráðinn prestur á Hólmavík var prófdómarinn. Og nú rétt fyrir sumardaginn fyrsta var séra Andrés mættur til þess að prófa nemendurna í vorprófum. Síðasta vetrardag skall á með norðan stórhríð, fárviðri með hörku frosti. Vindurinn stóð beint inn Húnaflóann og við þessar aðstæður var engum fært út úr bænum í Asparvík.

Minnist ég þess að útihurðinni var læst svo enginn slyppi óvart út í hríðina. Fjárhúsin og fjósið voru bara nokkra tugi metra frá bænum, samt var strengd lína til að fylgja svo hægt væri að fara þar á milli. Rokið og hríðin var svo mikil að ekki sá handaskil. Kindunum var hleypt út á hverjum degi niður í fjöru þegar gaf. Oft voru mokaðar niður snjóhengjurnar niður í fjöruna ef þurfti. Kindunum hafði nú ekki gefið út í nokkra daga. Það var siður að morgni sumardagsins fyrsta að vera með nýbakaðar lummur og heitt kakó fyrir alla á heimilinu. Reyndar var venjan sú að ungu mennirnir á bænum báru veitingar til stúlknanna í rúmið en það var þó ekki hægt þennan dag vegna fjöldans. Var það dálítill handleggur að baka fyrir svo margt fólk, en mamma mín Laufey, amma Guðrún og Heiða systir voru vanar að taka til hendinni og voru ekki í nokkrum vandræðum að reiða fram veislu. Heimilið með utanaðkomandi skólabörnum hefur þá talið um 25-30 manns. 

Mitt í því sem við gæðum okkur á lummum og kakói um morguninn – úti geysar öskubylurinn – kemur faðir minn fannbarinn inn úr húsunum. Var hann heldur sorgmæddur og þungur á brún. Tvær ær sýndu þá doðaeinkenni og ekkert meðal tiltækt til þess að bjarga þeim með. Hafði hann þá orðið að taka það eina til bragðs að lóga þeim. Ég man hvað faðir minn var sorgbitinn og við þegar hann sagði þær hefðu báðar verið með tveim lömbum. Önnur ærin hét Mjallhvít en hin Brúska. Ég man enn þann dag í dag hvernig þær litu út; þær voru kollóttar líkt og flestar Asparvíkurær, mjallhvítar á lagðinn með féskúf á nefi og loðinn brúsk í krúnunni.

Það var ávallt þungbært að missa vetrarfóðraðar ær. En á hinn bóginn var marga munna að metta á heimilinu þar sem heill farskóli sat veðurtepptur. Því var það svo að á kvöldi sumardagsins fyrsta var nýtt ærkjöt á borðum fyrir allan þennan stóra hóp. Heiða systir mín sem þá var 15 ára sagði síðar að sér hefði ekki liðið vel þegar hún var að matreiða kjötið um kvöldið fyrir allt fólkið. En svona var lífið.

Sumardagurinn fyrsti var einn mesti hátíðisdagur til sveita á þessum árum. Það þótti því sjálfsagt að hafa helgistund, bæn og sálmasöng á þessum degi. Séra Andrés var alveg einstakur guðsmaður og öðlingur af bestu gerð og um kvöldið kallaði hann allt heimilisfólk saman í stóru stofunni í nýja húsinu í Asparvík. Þar sátum við öll meðan stormurinn barði gluggana. Ekkert var til sparað til þess að gera stundina sem hátíðlegasta.

Stofuskápurinn hennar mömmu var notaður sem altari sem Halldór föðurbróðir á Drangsnesi hafði smíðað. Síðan var þríarma ljósastjaki frá Soffíu systur mömmu settur á altarið með logandi kertum. Allur hópurinn nær þrjátíu manns stóð þétt saman í stofunni í Asparvík og söng fullum hálsi sálminn Friðriks Friðrikssonar:

„Dýrlegt kemur sumar með sól og blóm, senn fer allt að vakna með lofsöngsróm, vængjaþytur heyrist í himingeim, hýrnar yfir landi af þeim fuglasveim“.

„Vakna þú sem sefur, því sumarskjótt sigrað kuldann hefur og vetrarnótt“

Og því svo fylgt eftir með sálmi Brynjólfs Jónssonar:

„Komið er sumarið, kærleiki Drottins oss gleður, komum nú fyrir hann lotning og þakkargjörð meður. Látum vor ljóð lofgjörðar fylla þann óð, nú sem öll náttúran kveður.“

Öll erindin sungin fullum hálsi.

Það hrikti í öllu húsinu undan norðan storminum, hríðin úti og sortinn byrgði alla sýn. Söngurinn í stofunni í Asparvík hyllti vorið, blómin og sólina og yfirgnæfði óveðursgnýinn.

Hljómmikil og vorglöð rödd séra Andrésar hljómar enn fyrir eyrum. Þetta var stórfengleg stund.

Sumarkoman lofsungin í mót hörku vetrarins.

Óveðrið stóð í nærri viku eins og hríðarnar gerðu oft á Bölum. Já, vorið 1949 var óhemju kalt og snjór og kuldar fram um 20. júní.

En eftir það kom hlýviðri og sumarið og haustið var gott.

( Birtist að hluta sem grein í bókinni" Myndir og minningar af Ströndum sem Sauðfjársetrið á Ströndum gaf út nú fyrir jólin)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband