Þriðjudagur, 17. nóvember 2020
Veirulaus jól ?
Fjöldi veirusmita er á niðurleið og bóluefni í augsýn með vorinu. Nú er að halda "kúlinu" og berja veiruna alveg niður
Það er athyglisvert að meðan sumir leita "sökudólga" vegna harmleiksins á Landakoti meðal stjórnenda þar, eru aðrir sem tala um mannréttindabrot, þegar reynt er að hindra að smitaðir einstaklingar beri veiruna á ný inn í landið.
Ef menn vilja leita að meintum "sökudólgum" vegna þess sem þjóðin hefur mátt þola á haustmánuðum, er þá kannski frekar að finna meðal þeirra sem þrýstu á um opnun landamæra og slökun á eftirliti þar síðsumars.
Það var öllum ljós sú mikla áhætta sem tekin var, enda slapp veiran inn og náði að hreiðra um sig með afleiðingum sem við þekkjum.
Hert landamæraeftirlit
Bæði sóttvarnalæknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafa hvatt til herts landamæraeftirlits. Þeir höfðu uppi sterk viðvörunarorð í haust þegar veiran slapp inn og langar ekki í endurnýjun á slíku.
Við ættum því öll að þakka og fagna auknu eftirliti á landamærum sem getur hindrað að nýsmit berist inn í landið. Fórnarkostnaðurinn af "ævintýrinu" frá því síðasumars er orðinn ærinn og nægur lærdómur fyrir þjóðina.
Að skipta þjóðinni upp í sóttvarnarhólf og einangraða hópa eftir "áhættu" er fjarræn og til þess fallin að setja umræðuna á dreif.
Fólk í "áhættuhóp" á börn. Fullfrískt fólk þarf að sinna kennslu og hlúa að gömlu fólki. Afar og ömmur gegna lykilhlutverki í samfélaginu osfrv. Við erum eitt samfélag fólks en ekki vélmenna
Markmið að kveða veiruna niður
Það er líka mjög sérkennilegt að umræðan snýst stöðugt um spurninguna hverju má aflétta í stað þess að beinast að því hvað þurfum við að gera til þess að ná settu marki og útrýma veirunni hér innanlands.
Það sýndi sig í vor að það var hægt að útrýma veirunni hér innan lands. Um það snýst líka samstaðan.
Sem eyland eigum við alla möguleika á því, ef bæði sóttvarnayfirvöld, almannavarnir og almenningur hefur trú á að það sé hægt.
Það er til staðar öll þekking, tækni og skipulag til að nánast útloka nýsmit inn í landið.
Spurningar fjölmiðla ættu að snúast um hvort þetta sé næg ráðstöfun á hverjum tíma til þess að ná settu marki.
Sýnileg tilgreind markmið í sóttvörnum eru því miður oft óljós og þess vegna verður umræðan stundum út og suður: Hversvegna er þetta ekki leyft heldur hitt osfrv.
Það hugnast engum að"læra að lifa og deyja" með veirunni.
Að halda einbeitingunni og vinna sigur.
Smitum er að fækka nú, sem er vel, en sama staða var einnig uppi um miðjan september.
Veiran hefur sýnt að hún er ólíkindatól
Þeim er vandi á höndum sem stýra málum í veiruvörnum.
Mikilvægt er þá að vera samkvæmur sjálfum sér og hafa markmiðið á hreinu.
Það að aflétta grímuskyldu á þeim sem hafa fengið veiruna en viðhalda á öðrum hljómar mjög ruglingslegt, vægast sagt.
Ætli að það séu nema um 10 þúsund manns sem hafa fengið veiruna hér á landi og myndað mótefni?
Öll hin liðlega 300 til 400 þúsund hafa það ekki.
Hvernig á að fara að plokka þá út við afgreiðsluborðið í Bónus.
Þó svo að framvísað sé slíku vottorði þarf að sannreyna það með gildum persónuskílríkjum og mynd sem er ærin fyrirhöfn.
Fyrir okkur hin sem erum að versla skapar það óöryggi að sjá aðra grímulausa.
Kannski verður bara að eyrnamerkja þá sem hafa fengið veiruna eins og lömbin á vorin svo þeir þekkist í hópnum.
Ljóst er að samfélagið þráir heitast að geta haldið Covið frí jól
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.