Fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Á sundlaugarbakkanum
Sundkennsla barna er njög mikilvæg og almenn skylda sem er gott. Sjálfur fer ég í nokkrar sundlaugar mér til heilsubótar. Þá sér maður oft blessuð börnin 7, 8, 9 ára vera að koma í sund á morgnana.
Eins heyri ég af reynslu barnabarnanna af sundkennslunni. Aðstæður til kennslu eru mjög misjafnar. Sumstaðar eru innilaugar en aðrar eru opnar og berangurslegar í miðjum strekkingnum og sjókomunni sem hefur verið ríkjandi undanfarið.
Ég viðurkenni alveg að ég vorkenni oft þessum litlu greyjum í hálfkaldri lauginni í nepjustormi snemma að morgni. Það getur varla skilið eftir góðar minningar í því tíðarfari sem hefur verið undanfarið. Sumir segja að þau herðist við þetta sem má vel vera en mér fyndist nú samt að hafa ætti útisundkennsluna undir vorið.
Mér gekk sjálfum frekar illa að læra að synda og fannst ég vera eftirbátur jafnaldranna lengi vel.
Ég tek eftir að mjög er misjafnt hvernig sundkennarnir haga sér við þessar aðstæður. Sumstaðar eru þeir í sundfötum og sjálfir niðri í lauginni hjá börnunum og tala við þau á sama grunnfleti.
Annarsstaðar standa sundkennararnir dúðaðir í þykkum kuldagöllum á sundlaugarbakkanum og hrópa leiðbeiningar og skipanir niður í laugina til barnanna, hálfskjálfandi í nepjunni.
Ég velti fyrir mér hvort leiðbeinendurnir eigi ekki líka að vera niðri í vatninu með börnunum og tala til þeirra á sama fleti.
Börn eru hvergi berskjaldaðri en í sundi eða í íþróttum. En þátttaka allra og vellíðan er afar félagslega mikilvæg
Það hlýtur því að þurfa gæta sín vel á orðbragði og athugasemdum gagnvart litlum börnum í íþróttum og á hvern hátt leiðsögnin er framkvæmd.
Eitt ógætilegt orð eða vanhugsuð athugasemd getur skilið eftir djúp sár og haft félagslega afdrifaríkar afleiðingar. En hvatning og viðurkenning er jafnframt gott vegarnesti fyrir barnið inní framtíðina sem er jú hin viðtekna regla
Ég velti fyrir mér hvaða símenntun, aðhald, stuðning og eftirlit það fólk fær sem vinnur með börnum á þessum margbreytilega íþrótta vettvangi.
Þar er mikil ábyrgð á ferðinni sem oftast er mjög vel unnin. En aðgát skal höfð í nærveru sálar. Vorið er framundan með hækkandi sól .
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.