Ólafur H. Torfason látinn

 

 Ólafur H. Torfason(Mynd: Frá vinstri: Ingibjörg Sólveig Bergsteinsdóttir Kolka, Ásgeir Jónsson, Ólafur H. Torfason, Bjarni Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir Kolka.)

Ólafur H. Torfason eða Óli Torfa sem við kölluðum hann daglega er einn þeirra sem ur er innilega þakklátur fyrir að hafa kynnst og átt samleið með. Það var mikill fengur að fá þau Óla og Signýju til kennslustarfa við Grunnskólann í Stykkishólmi haustið 1975. Við Ingibjörg vorum þá við búskap í Bjarnarhöfn og börnin sóttu skóla í Stykkishólm.  

Fljótlega tókst náin og góð vinátta milli fjölskyldnanna og næstu árin voru þau Óli og fjölskylda eins og hluti af fjölskyldu okkar í Bjarnarhöfn. Óli var einstakt ljúfmenni, náttúrubarn með glöggt auga listamannsins, ljósmyndarans, sögumannsins, já mannvinarins. Hann færði okkur nýjar víddir í að sjá náttúruna og njóta fjölþættra mynda hennar. Óli var með okkur í smalamennskum, eyjaferðum, sauðburði o.s.frv., og varla var sú fjölskyldusamkoma í Bjarnarhöfn að þau Óli og fjölskylda væri ekki mætt sem ein af okkur. Þá var gjarnan myndavélin á lofti.

Börnin dáðu Óla sem kennara og fræðara. Hann var eins og hluti af hópnum, spurði sömu spurninganna og börnin vildu fá svör við. Þetta voru einmitt sérkenni Ólafs og gerði hann að einum vinsælasta útvarpsmanni, þáttarstjórnanda og fjölmiðlamanni landsins um árabil. Ólafur hafði svo einstaklega góða návist, kankvísa brosið, leiftrandi góðleg augun og yfirveguð framkoma gæddi umhverfi hans hlýju en jafnframt þrungið eftirvæntingu. Málverk Óla frá tímunum fyrir vestan prýða veggi heimilis okkar.

Sumarið 1982 komu þau Óli og fjölskylda við hjá okkur á Hólum í Hjaltadal. Óli var kaþólskur og við sammála um að hver blettur á Hólastað væri heilagur. Signý var þá að sækja um leikhússtjórastöðu á Akureyri og þau spennt um hvort staðan félli henni skaut. Í anddyri Hóladómkirkju er áheitabaukur. "Nú heitum við á Jón Arason biskup að þú fáir stöðuna, Signý". Það gekk eftir og þau Óli fluttust til Akureyrar. Minntumst við oft á þetta síðarmeir. Jón Arason bregst ekki sínum.

Vináttan og samstarfið dafnaði áfram eftir að Óli og fjölskylda fluttu til Akureyrar og við til Hóla. Óli var mikill vinur Hóla í Hjaltadal og þau árin sem hann vann hjá Ríkisútvarpinu á Akureyri og hjá Heima er best voru þau ófá myndaskotin, viðtölin og fréttirnar sem hann miðlaði landsmönnum um það sem var að gerast á Hólum. Sama var einnig í ritstjóratíð hans á Þjóðviljanum og sem forstöðumaður Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins. Óli vann fyrsta kynningamyndbandið um Hólaskóla og Hólastað sem sýnt var í sjónvarpi og í skólum landsins til að trekkja að nemendur heim að Hólum.

Náttúran í allri sinni fjölbreyttu dýrð, sagan og aldalöng menning þjóðarinnar léku grunnstefið í öllu því sem Ólafur tók sér fyrir hendur. Færni hans sem blaðamanns, þáttastjórnanda, fræðimanns, ljósmyndara, myndlistarmanns og rithöfundar lék honum á fingri.
Við fjölskyldan öll minnumst Ólafs með djúpu þakklæti og virðingu og þökkum einlæg og góð kynni í gegnum árin.

Guð gefi landi voru marga slíka. Blessuð veri minning góðs vinar, Ólafs H. Torfasonar. Fjölskyldu Ólafs sendum við einlægar samúðarkveðjur.

Ingibjörg Kolka og Jón Bjarnason (Birtist í Mbl. laugardaginn 22. júlí 2017).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband