Matthías Eggertsson fyrrum tilraunastjóri, búfræðikennari og ritstjóri var kvaddur frá Neskirkju 3. maí. Matthías fæddist 19. júlí árið 1936 og lést 24. apríl sl.
Mér er ljúft að minnast þessa góða vinar, fræðara og lífskúnstner sem stöðugt gat miðlað ríkulega af þekkingu sinni og reynslu. Matthías var margfróður, hrókur alls fagnaðar, hreif áheyrandann með einstakri frásagnargleði og gott var að vera í návist hans
Það sást og heyrðist til Matthíasar Eggertssonar hvar sem hann fór. Hár og vörpulegur með góðlegt yfirbragð og festu í augum. Hann var virkur í fjölþættum störfum samfélagsins hvort sem það var á sviði landbúnaðar, þjóðlegra fræða eða bara daglegu lífi samferðafólksins. Það var lagt við hlustir þegar Matthías tók til máls.
Matthías var búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal 1958 og brautskráðist sem kandidat frá Landbúnaðarháskólanum að Ási í Noregi 1961.
Hann var fræðari af guðs náð og menntun hans og reynsla naut sín afar vel á því sviði. Hvort heldur sem tilraunastjóri á Skriðuklaustri, kennari á Hólum í Hjaltadal, ritstjóri Búnaðarblaðsins Freys eða á öðrum fræðavettvangi.
Hankattföreningens störste taler var sagt af djúpri virðingu um Matthías Eggertsson þegar félagar hans að Ási í Noregi minntust veru þessa höfðinglega manns. En leiðir mínar lágu að Ási nokkrum árum eftir að Matthías var farinn heim.
Matthías sjálfur hafði mjög gaman að rifja þessa nafngift upp þegar talið barst að Ási og félögunum þar.
Hankattforeningen var eitt elsta og virðulegasta félag stúdenta við Landbúnaðarháskólann og þar naut Matthías sín vel eins og hvarvetna þar sem hann kom að félagsmálum.
Matthías var mikill Hólamaður og bar sterkar taugar til skólans, Hólastaðar og samfélagsins í Hjaltadal. Hann var jú búfræðingur frá Hólum en gerðist síðan kennari við Bændaskólann 1971- 1980.
Og Hjaltdælingar kunnu vel að meta hæfileika Matthíasar, hann naut mikillar virðingar og þeir treystu honum vel í sínum málum. Matthías sat í hreppsnefnd Hólahrepps 1974 til 1980 og formaður skólanefndar Grunnskólans á Hólum 1974 til 1980 og stýrði jafnframt bygginganefnd nýs Barnaskóla Hóla- og Viðvíkurhrepps.
Tillögur Matthíasar um framtíð Bændaskólans á Hólum áttu einmitt hlut að farsælli endurreisn Hólaskóla nokkrum árum síðar.
Hólamenn minnast því Matthíasar og starfa hans með virðingu og miklu þakklæti.
Það er sagt um menn eins og Matthías að þeir eru margfróðir og stundirnar í spjalli við þennan einstaka og elskulega mann á skrifstofunni í Bændahöllinni eða þegar hann kom í heimsóknir að Hólum eru ógleymanlegar.
Meðal kunningjanna og í minningu gamalla Ásverja er og verður Matthías Eggertsson okkar Störste taler.
Landbúnaðurinn, íslensk bændamenning og fræðasamfélag á Matthíasi mikið að þakka.
Í kirkjunni í Bjarnarhöfn standa þessi minningarorð um Dórótheu Hjaltalín .. og guð gefi landi voru marga slíka.
Þessi fögru orð er svo vel hægt að heimfæra á Matthías Eggertsson: Guð gefi landi voru marga slíka.
Við Ingibjörg sendum Margréti, eftirlifandi eiginkonu og fjölskyldunni allri einlægar samúðarkveðjur.
Úr minningargreinum Morgunblaðisins
Matthías Eggertsson
Matthías Eggertsson fæddist í Hafnarfirði 19. júlí árið 1936. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 24. apríl 2017.
Foreldrar hans voru Eggert, starfsmaður Flugfélags Íslands og kvæðamaður í Reykjavík, og Jóhanna, garðyrkjufræðingur og húsmóðir. Eggert var sonur Lofts Guðmundssonar, bónda og oddvita á Strönd í Meðallandi, og Guðfinnu Björnsdóttur, húsfreyju og ljósmóður. Jóhanna var dóttir Arnfinns Kristjáns M. Jónssonar, bónda í Lambadal og á Dröngum í Dýrafirði, og Ingibjargar Sigurlínadóttur húsfreyju. Systir Matthíasar er Guðbjörg, fyrrverandi ritari og húsmóðir, fædd 1939.
Þann 26. maí árið 1962 kvæntist Matthías Margréti Guðmundsdóttur kennara frá Sámsstöðum í Hvítársíðu. Börn þeirra eru: 1) Sigríður, f. 1965, sagnfræðingur, maki Jón Pálsson þýðandi, f. 1955. 2) Jóhann Eggert f. 1968, málarameistari, maki Þórhildur Halla Jónsdóttir, f. 1972, tónlistarkennari. Þau eiga þrjú börn: a) Ólafur, f. 2000, b) Kristín Gréta, f. 2003, c) Matthías Hallur, f. 2010. Jóhann á einnig soninn Alexander Örn, f. 1992. 3) Pétur Ólafur, f. 1970, hagfræðingur og bankastarfsmaður, maki Anna Eleonora Hansson, f. 1970, innanhússarkitekt. Þau eiga tvö börn: a) Hanna Margrét, f. 2004, b) Eva Sigríður, f. 2005.
Matthías ólst upp í Reykjavík en var í sveit á sumrin í Meðallandinu. Hann gekk í Austurbæjarskólann, Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Menntaskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf árið 1956. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands veturinn 1956-57. Árið 1958 lauk hann búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal. Árin 1958-61 stundaði hann nám við Landbúnaðarháskólann á Ási í Noregi og útskrifaðist þaðan sem búfræðikandídat. Var sérgrein hans á sviði jarðræktar.
Hann hóf störf árið 1962 sem tilraunastjóri við Tilraunastöðina á Skriðuklaustri í Fljótsdal og starfaði þar til 1971. Árin 1971-80 var hann kennari við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal. Þá var hann ritstjóri Búnaðarblaðsins Freys frá 1980-2007 eða þar til Freyr hætti að koma út. Eftir það ritaði hann greinar í Bændablaðið meðan heilsan leyfði. Hann var virkur í félagsmálum, var oddviti Fljótsdalshrepps og sýslunefndarmaður 1966-71 og formaður Búnaðarfélags Fljótsdalshrepps 1962-71. Hann sat í hreppsnefnd Hólahrepps 1974-80, var formaður skólanefndar grunnskólans á Hólum 1974-80 og formaður byggingarnefndar barnaskóla Hóla- og Viðvíkurhrepps er tekinn var í notkun 1977. Hann átti sæti í tilraunaráði landbúnaðarins 1965-69.
Matthías var afar ritfær og mikill áhugamaður um íslenska tungu. Auk ritstjórnarstarfa og greina í blöð og tímarit skrifaði hann kennslubækur í jarðrækt og búnaðarhagfræði og kennslubókina Áburðarfræði ásamt Magnúsi Óskarssyni 1978. Hann sá um og ritstýrði ýmsum sérritum landbúnaðarins. Þá var hann formaður ritnefndar að ritinu Íslenskir búfræðikandídatar 1985. Ritstjóri Handbókar bænda var hann með hléum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.