Um ráðherrakapla

Það er svo skondið að heyra fyrrverandi og núverandi stjórnar og stjórnarandstöðu- þingmenn takast á um skipan ráðuneyta og fjölda ráðherra:( „Báknið byggt upp“ )

Svo lengi sem ég man eftir hefur ráðherrum verið fjölgað eða fækkað allt eftir því hvað þarf að koma mörgum fyrir eða koma í veg fyrir að einhverjir verði ráðherrar, sem forystumenn flokka töldu sér erfiða.

Allar uppstokkanir og breytingar á ráðuneytum hafa reynst miklu dýrari en menn þóttust gera ráð fyrir, enda markmið þeirra allt annað en sparnaður.

Umhverfisráðuneytið var stofnað á sínum tíma til að koma Júlíusi Sólnes í ráðherra stól og tryggja aðkomu Borgaraflokksins að ríkisstjórn. Það var svo sem farsæl ákvörðun.

 Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var stofnuð 2009 voru teknir inn utanþingsráðherrar undir því falska flaggi að verið væri að breikka ásýnd ríkisstjórnarinnar.

Staðreyndin var hinsvegar sú að verið var að koma í veg fyrir að ákveðnir þingmenn stjórnarflokkanna tækju sæti í ríkisstjórn. Þar sem þeir voru ekki þingmenn jókst heildar launakostnaður stjórnsýslunnar sem nam launum þeirra.

 Utanþingsráðherrar eru án pólitískrar ábyrgðar, embættismenn sem formenn flokkanna öxluðu ábyrgð á og völdu sér til að geta sagt fyrir verkum.

Þeir urðu hinsvegar að fara þegar  "ráðherra Kúbu norðursins" stóð frammi fyrir vantrausti og  hinn ráðherrann  var óþægur og vildi ekki fækka sýslumönnum og lögreglumönnum á landsbyggðinni og skera niður löggæsluna eins mikið og krafist var. Um þetta var tekist á um í ríkisstjórn.

Það var engin kostnaðargreining sem sýndi sparnað við að leggja niður sjávarútvegs og landbúnarráðuneytið eða efnahags og viðskiptaráðuneytið, heldur var það pólitísk aðgerð til að þóknast ESB umsókninni. Hin meginástæðan var sú að losna þurfti við ákveðna menn úr ríkisstjórn og þess vegna þurfti að leggja ráðuneytin niður.

 Enda var þeirri breytingu á ráðherraskipan sérstaklega fagnað af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í skýrslu tengdri framvindu aðlögunarferlis Íslands að Evrópusambandinu á sínum tíma.

En sjálfstætt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti var ESB sinnum hér á landi og hjá ESB mikill þyrnir í augum og þess vegna þurfti að leggja það niður. Hinsvegar var það strax endurreist af næstu ríkisstjórn.

Fjölgun ráðherra  nú er til að leysa vanda þriggja flokka ríkisstjórnar og koma sem flestum einstaklingum í ráðherrastóla af ýmsum skiljanlegum ástæðum og halda öðrum utanvið. 

Reyndar er ég hlynntur fjölgun ráðherra og tel að þeir eigi jafnframt að vera þingmenn og bera ábyrgð gangvart þinginu.

Embættismannaveldi stjórnsýslunnar er þegar orðið alltof mikið og veikir ráðherrar sem sjá ekki útyfir málflokkinn verða kerfinu auðveld bráð.

Hugmyndin um að forsætisráðherra skipaði aðra ráðherra í ríkisstjórn og þeir störfuðu í umboði forsætisráðherra en ekki þingsins fannst mér alveg fráleit.

En slíkri skipan var reynt að koma á í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í.

Ég og fleiri lögðumst hart gegn slíku auknu forsætisráðherraræði sem tröllreið húsum í ríkisstjórn á þeim tíma.

Menn geta svo sem tekist á um ráðherraskipan og fjölda ráðherra en þá er mikilvægt að það sé gert á sönnum forsendum, muna söguna og kalla hlutina réttum nöfnum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband