Um fall og endurreisn

Hæstiréttur og Dómarafélagið hafa hvorki Árna Helgason né Ólaf Hauk Árnason, því miður.   

Mér er enn í fersku minni þegar endurreisa þurfti stóran hóp  félagsmanna í Barnastúkunni Björk nr. 94 í Stykkishólmi.

 Þetta mun hafa verið á árunum fyrir 1960.

Árni Helgason símstöðvarstjóri, húmoristi og stórstúkumaður stjórnaði öllu stúkustarfi af miklum krafti og skörungsskap. Barnastúkan Björk  er stofnuð 1927 og  var deildaskipt, við í unglingadeildum bárum ábyrgð á starfi stúkunnar fyrir eldri bekkina.

Stúkan og allur félagsskapur og fjölbreytt menningarstarf í kringum hana er einn sá besti skóli sem ég hef tekið þátt í. Hún hélt utan um einstaklingana og hópinn og ræktaði ábyrgð og  félagsanda ásamt samfélaginu öllu. 

Þá var skólastjóri í Stykkishólmi Ólafur Haukur Árnason, skagfirðingur og mikill skólamaður.

Ólafur Haukur varð síðar áfengisvarnarráðunautur ríkisins og stórstúkuleiðtogi

Að sjálfsögðu var bannað að reykja bæði í stúkunni og skólanum. Gilti það hvar sem til sást. Og ekkert fikt í þeim efnum leyfilegt. Siðareglur stúkunnar voru skýrar og öllum ljósar.

Allt í einu kvisaðist frá einhverjum „fjölmiðlamanni“ eða "rannsóknablaðamanni" á staðnum á þeim tíma að sést hefði til nokkurra krakka vera að fikta  með sígarettur í eyðiskúr á staðnum.

 Þessi orðrómur barst skólastjóranum sem ákvað að taka strax fast á hlutunum. 

Ólafur Haukur af sinni alkunnu stjórnsemi gekk inn í hverja kennslustofu í unglingadeildinni og sagði að sést hefði til nokkurra unglinga vera að reykja. Eins og allir vissu væri það alveg bannað.

Ólafur Haukur vildi ekki tilgreina hverjir það væru, en bauð þeim sem teldu sig seka í málinu að koma upp á skrifstofu til sín á eftir og biðjast afsökunar og lofa bót og betrun.

Þar með væri það mál búið. 

Og nú hófst atburðarrás sem enginn sá fyrir. 

Gangarnir og stiginn að skrifstofu skólastjóra fylltust af nemendum sem töldu þörf á að biðjast afsökunar og fá syndakvittun hjá skólastjóra.

 Þá varð einnig uppi fótur og fit því það var líka bannað að reykja í barnastúkunni.

Heit og reglur stúkunnar voru skýr og öllum ljós.

Og ef menn féllu á heitum stúkunnar þurfti að "endurreisa" þá.

  Árni Helgason stúkuforingi í Stykkishólmi  var miklu klókari en Skúli Magnússon formaður Dómarfélagsins.

Árni var örugglega með allt sitt á þurru í þessum efnum.

Árni Helgsson byrjaði ekki á að formæla uppljóstranum eins og formaður Dómarafélagsins gerði, heldur undirbjó strax endurreisnarstarfið.

Aðeins æðstu embættismenn stúkunnar gátu veitt syndakvittun og "endurreist" hina föllnu félaga. 

Við Cesil Haraldsson nú sóknarprestur á Seyðisfirði vorum þá í forystu fyrir Barnastúkuna.

Hversu sanngjarnt sem það var, töldum við Cesil okkur ekki þurfa á fund skólastjóra. 

Árni Helgason hafði strax samband við okkur Cesil og var ákveðið að boða til stúkufundur þegar í stað um kvöldið. 

Á þeim stúkufundi gekk stór hópur unglingadeildar og félaga í Barnastúkunni Björk fyrir okkur Cesil með Árna Helgason við hlið, játuðu brot sín og báðust afsökunar á yfirsjón sinni að hafa fiktað með sígarettur.  Var var hópurinn allur endurreistur og stúkustarfið gekk áfram af fullum krafti og samfélagið allt  mjög sátt við skjóta úrlausn mála.

Dómarafélagið er greinilega ekki með höfðingja og andans mann eins og hinn þjóðfræga Árna Helgason stúkuleiðtoga  í Stykkishólmi. Árni Helgason er nú látinn, blessuð sé minning þess ágæta manns.

Hæstiréttur hefur heldur engan Ólaf Hauk Árnason til að ganga í stofur og minna á reglur.  En Ólafur Haukur er enn á lífi og örugglega til í slaginn.

Við Cesil Haraldsson sóknarprestur á Seyðisfirði höfum reynslu af hópendurreisn og gætum verið reiðubúnir að aðstoða Dómarafélagið og Hæstarétt ef til þarf að taka og menn telja sig þurfa að játa yfirsjónir sínar og veita syndakvittun gegn loforði um bót og betrun.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband