Fimmtudagur, 29. september 2016
Bylting í krabbameinsmeðferð
Ný lyf gegn ákveðinni tegund brjóstakrabbameins gefa mjög góða raun. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Í blaðinu eru raktar stórstígar framfarir í greiningu og meðferð brjóstkrabbameins sem getur verið margskonar.
" Við viljum helst geta raðgreint krabbameinsæxli allra nýgreindra" segir Ásgerður Sverrisdóttir krabbameinslæknir á Landspítalanum. Þannig er hægt að velja þau lyf sem eru bæði sértæk og gefa minnstar aukaverkanir.
En ný krabbameinslyf eru dýr og illfáanleg og sérstaklega ef þau eru á svokölluðu tilraunastigi.
" Við höfum náð að fá flest brjóstakrabbameinslyf sem eru með skráða ábendingu og þau mikilvægustu að við teljum En það er mikil vinna að baki, umsóknin þarf að fara í gegnum margar nefndir og síðan Lyfjagreiðslunefnd og Sjúkratryggingar Íslands þurfa að samþykkja greiðsluþátttöku".
Í dag er fæðingardagur Katrínar Kolka dóttur okkar en hún fæddist þennan dag 1982 og lést úr brjóstakrabbameini 27 febrúar 2011, sem tók hana mjög hratt.
Katrín var sjálf hjúkrunarfræðingur og leitaði ákaft að nýjum lyfjum og meðferðum sem að gagni mætti koma. Bágborinn tækjakostur Landspítalans og læknaskortur var einnig mjög erfiður.
En Katrín kynntist því líka sem Valgerður nefnir í mbl. viðtalinu, hve erfitt og seinvirkt það var að sækja um ný lyf sem mætti prófa eða komið að gagni en gekk ekki þrátt fyrir góðan stuðning lækna og fleiri aðila. Og krabbameinið bíður ekki á meðan. En nú eru komin ýmis lyf og greiningar sem voru ekki tiltæk þá, þótt ekki sé víst að þau hefðu hjálpað henni.
Það er því ánægjulegt að lesa þessa umfjöllun í Morgunblaðinu um þær framfarir í lyfjum og greiningum brjóstakrabbameins á síðustu misserum og væntingar til aukinna framfara á þeim sviðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.