Þriðjudagur, 8. september 2015
Fullveldið stærsta auðlind þjóðarinnar
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson lagði þunga áherslu á fullveldi þjóðarinnar við setningu Alþingis áðan.
Í krafti fullveldisins sóttum við eigið forræði á fiskveiðilögsögunni og landgrunninu. Með fullveldið að vopni gátum við hafnað ábyrgð þjóðarinnar á óreiðuskuldum einkaaðila. Hefðum við þá verið komin í ESB hefði hið yfirþjóðlega vald Evrópusambandsins hneppt íslensku þjóðina í ábyrgð fyrir einkaaðila og skuldafjötra svipuð og Grikkir nú bera:
Allir vissu að fullveldið var hornsteinn í sjálfstæðiskröfum Íslendinga. Réttur sem síðar var hertur við erlend ríki um útfærslu landhelginnar. Fullveldið var þá forsenda þess að fámenna þjóðin bar hærri hlut en heimsveldið, sagði forsetinn og bætti við að fullveldisrétturinn hafi einnig verið nýlega úrslitavopn þegar bandalag Evrópuríkja reyndi að þvinga Íslendinga til að axla skuldir einkabanka.
Íslendingum hefur alla tíð frá lýðveldisstofnun tekist að stunda fjölþætt alþjóðasamstarf með ýmsum alþjóðastofnunum og öðrum ríkjum, án þess að þörf væri að breyta fullveldisákvæðum lýðveldisins, hinum helga arfi sjálfstæðisins, sagði forsetinn.
Þeir sem vilja skerða fullveldisréttinn
ESB aðildarsinnar á Alþingi vilja að fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar verði skert og þynnt út þannig að framselja megi æ fleiri forræðisþætti landsins til yfirþjóðlegra stofnana eða ríkjasambanda. Þessa umræðu þekkti ég vel sem ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem Evrópusambandsumsóknin og stjórnarskrárbreytingar hennar vegna fylgdust að hjá forystumönnum þáverandi ríkisstjórnarflokka.
Sem betur fór tókst að koma í veg fyrir þau áform þá.
ESB aðildarsinnar á Alþingi munu áfram sækja hart að fullveldinu í umræðum um breytingar á stjórnarskránni.
Það var því hárrétt hjá forsetanum að vara alþingismenn við skerðingum á fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar
"Sjálfstæðið er sívirk auðlind" segir Ragnar Arnalds í samnefndri bók.
Það er öllum ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson hefur sem forseti átt farsæla aðkomu að styrkja sjálfstæða ímynd Íslands bæði innlands sem og á alþjóðavettvangi. Hann hefur staðið vörð um fullveldið og beitt ákvæðum stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæði því til varnar á örlagatímum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.