Föstudagur, 28. ágúst 2015
Klókindi Össurar
Nýr framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar Kristján Guy Burgess var sérlegur aðstoðarmaður Össurar sem utanríkisráðherra í síðustu ríkisstjórn og sálufélagi í ESB- málum.
Fyrir nokkru var Stefán Haukur Jóhannesson formaður samninganefndarinnar um inngöngu í ESB skipaður ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu. Þessir menn tveir skipuðu lykilstöður og voru hægri og vinstri hönd Össurar sem utanríkisráðherra og eru afar kappsamir í að leiða Ísland inn í Evrópusambandið.
Össur veit að eina von Samfylkingarinnar til að ná sér aftur á strik er að koma inngöngu í Evrópusambandið aftur á dagskrá og mikilvægt að halda öllu opnu í þeim efnum.
Snillingar í bréfaskrifum á tungumáli Evrópusambandsins
ESB aðild var jú eina mál Samfylkingarinnar og það styttist í næstu kosningar.
Þessir þrír menn saman eru mestu snillingar landsins í að skrifa bréf á tungumáli Evrópusambandsins eins og alkunna er og einlægir ESB-sambandssinnar.
Kristján Guy Burgess er klár og þekkilegur maður og vafalaust fengur fyrir Samfylkinguna að fá hann sem framkvæmdastjóra.
Ráðning Kristjáns segir manni einnig að Össur styrkir stöðu sína á ný á hinu pólitíska sviði og hefur komið ár sinni vel fyrir borð. Krafan um inngöngu Íslands í Evrópusambandið getur orðið eitt aðalkosningamálið 2017.
Fyrir okkur andstæðinga ESB aðildar skiptir máli að umsóknin frá 2009 verði formlega og ótvírætt afturkölluð án alls skrúðmælgis með tungutaki sem allir aðilar skilja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.8.2015 kl. 12:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.