Fimmtudagur, 6. ágúst 2015
Samstarf og samskipti við aðrar þjóðir
Viðskiptabann og takmörkun á samskiptum við aðrar þjóðir er sjaldnast leið til að stuðla að friði, miklu fremur hið gagnstæða. Almennt viðskiptabann bitnar yfirleitt fyrst og fremst á almennum borgurum viðkomandi landa. Það hefur verið stefna Íslands að styðja ekki viðskipta bann í pólitískum tilgangi en rækta þess í stað samstarf og samtal við aðrar þjóðir.
Nýlega gerði Ísland viðskiptasamning við Kínverja en fordæmir jafnframt brot þeirra á mannréttindum og ofsóknum gegn minnihlutahópum. Aukin samskipti þjóða gefa kost á samtali og koma áherslum og gagnrýni á framfæri eins og í sjálfstæðis- og mannréttindamálum
Í þessu sambandi má velta því fyrir sér hvaða nágrannaríki ríki okkar það eru sem beita aðra efnahagsþvingunum. Skemmst er að minnast þess þegar Evrópusambandið fékk samþykkt lög á Evrópuþinginu 2011 til að geta beitt Íslendinga viðskiptabanni og refsiaðgerðum vegna lögmætra makrílveiða okkar. Um líkt leyti setti Evrópusambandið einnig viðskiptabann á Færeyinga vegna makríl- og síldveiða þeirra. Sú aðgerð gegn Færeyingum var afar ómannúðleg en yfir 90% af útflutningi Færeyinga eru fiskafurðir.
Þorskastríðið við Breta og síðan hryðjuverkalögin haustið 2008 var gróf aðför að sjálfstæði Íslands. Útfærsla landhelginnar var mikilvægur áfangi í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
Bann Evrópusambandsins á viðskipti við Grænlendinga með selskinn er mjög alvarleg aðgerð gegn efnahag þeirra, menningu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda landsins.
Áratuga viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu hefur verið fordæmt af mörgum þjóðum og er fjarri því, að það hafi náð þeim tilgangi sem Bandaríkjamenn ætluðu í upphafi. Enda er nú loks verið að aflétta því.
Engu að síður eru þessar þjóðir áfram einna mikilvægustu samstarfsþjóðir okkar sem við viljum rækta góð samskipti við en ekki hlýða í blindni skipunum frá.
Almennar viðskiptaþvinganir eru hinsvegar stórpólitísk aðgerð. Utanríkisráðherra Íslands verður að gera sér grein fyrir ábyrgð og mögulegum afleiðingum þess.
Tilgangurinn með viðskiptabanni þarf að vera skýr og jafnframt forsendurnar fyrir því að þessi þjóð en ekki önnur sé beitt aðgerðum af þeim toga. Þá þarf einnig að gera sér grein fyrir hvað þarf að gerast til þess að slíku banni sé aflétt.
Utanríkisstefna Íslands verður að vera sjálfum sér samkvæm.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.