Barátta hjúkrunarfræðinga

Ég styð heilshugar baráttu hjúkrunarfræðinga og lýsi megnri vanþóknun á framgöngu stjórnvalda, einkum ráðherra, í þeirra garð. Þar er  notað  nokkuð annað orðaval en sömu menn höfðu í frammi um kjarabaráttu lækna fyrr á árinu.

Barátta hjúkrunarfræðinga og annarra sérhæfðra starfsmanna sjúkrahúsa og heilsugæslu landsmanna snýst ekki aðeins um kaup og kjör, heldur ekki síður um menntun, aðbúnað, vinnutíma og skilning, samfélagslega stöðu og virðingu fyrir ábyrgð og verkum þeirra í íslensku velferðarsamfélagi.

Fjármálaráðherra talar niður til hjúkrunarfólks og kallar störf þeirra og baráttu „lagalega loftfimleika“ í háðslegum tón.

Heilbrigðisráðherra stóð að niðurskurði og lokun heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og sameiningu þeirrar starfsemi sem eftir var undir framkvæmdastjórn í fjarlægum landshornum. Ráðherra talar eins og hann beri þar enga ábyrgð og skammast út í fjölmiðla fyrir að lýsa ástandinu eins og það er.

Ég man vel þegar við Atli Gíslason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir börðumst á þingi gegn niðurskurðinum og kerfisbreytingunni hjá síðustu ríkisstjórn. Áformin um að loka heilbrigðisstofnunum t.d. í Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki voru þá stöðvuð í ríkisstjórn. Hins vegar runnu þau í gegn hjá núverandi stjórnvöldum.

Með lokun og skerðingu starfssemi á landsbyggðinni færðist aukinn þungi á þjónustu Landsspítalans sem engan veginn var undir það búinn. Álagið og afstaða stjórnvalda og umræðan öll er starfsfólki gríðarlega erfið. Hjúkrunarfólk leggur sjálft sig undir í að veita góða þjónustu við þungbærar aðstæður.

Hjúkrunarfræðingum og öðru sérhæfðu starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem nú á í deilum við ríkið er misboðið með því virðingarleysi og þeim hroka sem því er sýndur af hálfu stjórnsýslunnar.

Þar á bæ virðast menn hafa lítinn skilning á því að þjónustan, ímyndin og traustið sem sjúklingar og allur almenningur ber til heilbrigðisþjónustunnar hvílir á sérfræðiþekkingu en ekki síst á hug, höndum og hjörtum þeirra einstaklinga sem þar vinna.

Allur þessi tilfinningalausi barningur stjórnvalda er hinsvegar liður þeirra í grundvallarkerfisbreytingu heilbrigðisþjónustunnar sem unnið hefur verið að á undanförnum árum og nú síðast með auknum þunga.  

Markaðsvæðing og einkavæðing hafa verið töfraorðin. Liður í að undirbúa þann farveg er að hleypa ríkjandi skipulagi í upplausn, gera sem flesta óánægða með sinn hlut, bæði starfsfólk og sjúklinga. Síðan kemur einkavæðingin, starfsmannaleigurnar, verktakavæðingin, eins og frelsandi englar.

Kannski komu raunveruleg áform upp á yfirborðið í dag þegar stjórnvöld heilbrigðismála hótuðu hjúkrunarfólki og landsmönnum með erlendum starfsmannaleigum. Fólk verður að geta talað ís­lensku segir deildarstjóri gjörgæsludeildar Landspítalans.

Er nema von að metnaðarfullum og ábyrgum hjúkrunarfræðingum blöskri hótfyndn ráðherra.

Það er hugsanlegt að einkavæða lækna að hluta og borga þeim sem verktökum fyrir læknisstörf sín. Ég er þó ekki hlynntur þeirri breytingu.

Þú vakna- Þú borða- Þú sofa !

Verður það hlutskipti íslenskrar heilbrigðisþjónustu að starfsfólk á vegum erlendra starfsmannaleiga gangi að beði sjúklinga og geti lítið annað gert en veifað  spjöldum: „Þú sofa“,  „Þú vakna“, "Þú borða"?

Rétt er að árétta þá staðreynd að í baráttu hjúkrunarfræðinga er ekki aðeins verið að takast á um þjónustustig heldur einnig virðingu, aðbúnað, vinnutíma, kjör, traust og mannlega reisn í heilbrigðisþjónustu landsmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband