Miðvikudagur, 8. júlí 2015
Hver vill nú sækja um aðild að ESB ?
Sú var tíðin að ESB sinnar á Íslandi gengu um sperrtir með þanin brjóst um ganga Alþingis og kaffistofum opinberra stofnanna sem og í stjórnum ýmissa samtaka atvinnulífs og sveitarfélaga. Hundruðum saman flykktist fólk til Brüssel í boði Evrópusambandsins til að upplifa dýrðina.
Innganga Grikklands í ESB og upptaka Evru verður grísku þjóðinni dýrkeypt. Margir sérfræðingar segja að eina raunhæfa leið Grikkja þegar til lengri tíma er litið sé úrsögn úr Evrópusambandinu sem er því miður flókin leið og torfarin.
Grikkir eiga allan minn stuðning í þeirri frelsisvegferð.
ESB- sinnar á Íslandi á flótta
Hver ESB sinninn á fætur öðrum hér á Íslandi treður nú fram og afneitar ESB trúnni. Egill Helgason í góðum pistlum, Stefán Ólafsson prófessor fyrrum ráðgjafi Jóhönnustjórnarinnar, Svanur Kristjánsson og nú síðast Össur Skarphéðinsson sjálfur fyrrverandi utanríkisráðherra. Össur minn góði félagi og andstæðingur talar með nokkru yfirlæti án þess að minnast beint á félaga sína í Jóhönnustjórninni um "afleiðingar gjörða misvitra pólitíkusa" í Grikklandi og hjá ESB.
Ég velti því fyrir mér hvenær Jóhanna sjálf og Steingrímur sem keyrðu ESB umsóknina í gegnum þingið 2009 troði upp og biðji íslensku þjóðina afsökunar.
Frelsarinn sagði jú af alvarlegu tilefni: "Faðir fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra"
Kannski er nú komminn tími fyrirgefninga í ESB málum Íslendinga?
Stöndum með grísku þjóðinni
Með játningum og afturhvarfi æ fleiri ESB sinnanna er ef til vill komin samstaða um afdráttarlausa afturköllun umsóknarinnar sem send var illu heilli sumarið 2009, en sem betur fór tókst að svæfa nánast í fæðingu. Örlög grísku þjóðarinnar og gríðarlegur vandi eru því miður þessa stundina háð gjörðum "misvitra pólitíkusa" Evrópusambandsins
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.