Sigur lýðræðisins í Grikklandi

Gríska þjóðin hafnaði einhliða úrslitakostum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þjóðaratkvæðagreiðslu.

62% sögðu nei við kröfum ESB

 Forystumenn ESB og AGS höfðu hótað grísku þjóðinni einangrun og að setja efnahag landsins í rúst ef þeir höfnuðu kröfum þeirra. Það var m.a. krafist mikils niðurskurðar elli- og örorkulífeyris, stórfelldrar hækkunar virðisaukaskatts á  nauðsynjavörum m.a. á lyfjum og umfangsmikils niðurskurðar í opinberri þjónustu og víðtækri einkavæðingu samfélagsstofnana og þjónustu sem nú er á vegum hins opinbera.

"Hryðjuverkárás" ESB og AGS gegn Grikkjum

Öllum sem vildu vita var ljóst að Grikkland gat ekki borgað þær kröfur sem sem ESB og AGS kröfðust. Þau neyðarlán sem Grikkland hefur fengið að undanförnu hafa runnið beint aftur til evrópskra banka í stað þess að byggja upp og styrkja innviði Grikklands og gera þeim kleyft að byggja sig upp að nýju.

Alexis Tsipras forsætisráðherra Grikklands kallaði kröfur og hótanir ESB-leiðtoga beina hryðjuverkaárás á Grikkland.

Er okkur skemmst að minnast þegar Bretland með stuðningu AGS og ESB setti hryðjuverkalög á Ísland haustið 2008.

Ætlun þeirra var að knýja Íslensku þjóðina til uppgjafar og hlýðni við ESB-valdið. Þökk veri neyðarlögunum og að við vorum utan ESB með eigin mynt náðu áform þeirra ekki fram að ganga. Þá skipti vinátta grannþjóða eins og Færeyinga og Pólverja miklu máli. Ljóst er að vandi Grikklands er mikill.

Kúgunarstefna ESB og AGS hefur beðið skipbrot í þjóðaratkvæðagreiðslu Grikkja. Hvort það er næg lexía til að þetta ofurvald sjá að sér og bjóði Grikkjum viðráðanleganlega samninga kemur í ljós á næstu dögum.

Íslensk stjórnvöld styðji Grikki

Íslensk stjórnvöld eiga þegar í stað að mótmæla framkomu leiðtoga ESB-ríkjanna sem nú hóta Grikkjum. Ríkisstjórnin á að lýsa yfir stuðningi við grísku þjóðina og styðja sjálfstæðisbaráttu hennar með beinum hætti, pólitískt og efnahagslega. Þjóðaratkvæðagreiðsla Grikkja er einstök og mikilvæg hvatning til lýðræðisins og fordæmi fyrir aðrar þjóðir.

Kjarkur Grikkja og þor og sjálfsvirðing mun hafa gríðarlega áhrif á vitund og sjálfstæðisbaráttu þjóðanna í Evrópu og slá til baka, tímabundið a.m.k., yfirgang og kúgun Brüsselvaldsins.

- Hvar værum við stödd, ef áform ESB-sinnanna á Ísland  um að troða Íslandi inn í ESB hefðu náð fram að ganga með aðildarumsókninni 2009?

Sem betur fór tókst með einörðum aðgerðum að stöðva þann feril í tíma.

Utanríkisráðherra Íslands á þegar í stað að krefjast staðfestingar á því frá Brüssel að umsókn Íslands hafi verið endursend eins og íslensk stjórnvöld hafa beðið um.

Þeir stjórnmálamenn sem enn flytja tillögur á Alþingi Íslendinga um að halda til streitu umsóknar- og aðlögunarferli Íslands að ESB ættu að sjá að sér og að biðja þjóðina afsökunar og afturkalla þann tillöguflutning.

Hjarta lýðræðis slær í Grikklandi

Það hafa orðið kaflaskil í þróun ESB.

Grænland sagði sig úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst þjóða.

Þá var samþykktum ESB breytt til þess að slíkt yrði nánast ómögulegt.Norðmennn höfnuðu aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í kjölfarið breytti ESB samþykktum sínum þannig að umsóknarríki verður að innleiða öll lög og reglur ESB áður en samningsköflunum er lokað. 

Nú hefur efnahagslegum  þvingunarkröfum ESB á eitt aðildarríki verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gríska þjóðin vill sjálf ákvarða um framtíð sín líka þegar erfiðleikar steðja að. Hvernig ESB bregst nú við skýrist á næstu dögum.

Staðreyndin hinsvegar er sú að ein elsta lýðræðisþjóð heims, Grikkland vísar áfram veg lýðræðisins og gefur fordæmi sem er öllum þjóðum mikilvæg og verður einstök hvatning til framtíðarinnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband