Sunnudagur, 7. júní 2015
Hátíðarkveðjur á sjómannadaginn
Föðurland vort hálft er hafið,
helgað margri feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Ég sendi sjómönnum og fjölskyldum þeirra hátíðarkveðjur á sjómannadaginn.
Þessar ljóðlínur úr sálmi Jóns Magnússonar lýsa svo vel hinni eilífu sókn og baráttu eyþjóðar fyrir sjálfstæðri tilveru sinni.
Það voru sjómennirnir og fiskvinnslufólkið sem breytti auðlind fiskimiðanna í dýrmæta útflutningsvöru sem skóp okkur gjaldeyri og var undirstaða sjálfsstæðis, framfara og velsældar íslensku þjóðarinnar.
Við minnumst með virðingu og þökk allra þeirra sem létu líf sitt í hildarleiknum við öldur hafsins. Við minnumst þeirra sem tóku lokaslaginn í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar við útfærslu fiskveiðilögsögunnar og sigursins í þorskastríðinu við Breta og aðrar Evrópuþjóðir.
Þá stóð íslenska þjóðin sameinuð í lokabaráttunni fyrir fullveldinu og vann sigur.
Og áfram eru það sjómennirnir og auðlindir hafsins sem stöðvuðu áform svikulla íslenskra pólitíkusa sem reyndu allt hvað þeir gátu til að svifta þjóðina sjálfstæði sínu og troða Íslandi í Evrópusambandið. Þar voru á ferð pólitíkusar sem jafnvel gengu þvert á loforð og fyrirheit sem þeir höfðu gefið kjósendum sínum og þjóðinni.
Það er með ólíkindum að til séu þeir menn íslenskir sem vilja framselja yfirráð fiskveiðiauðlindarinnar, frumburðarrétt þjóðarinnar til erlends ríkjasambands.
"Föðurland vort hálft er hafið þar mun verða stríðið háð"
Þessi orð eiga vel við í vörn og sókn í hinni eilífu baráttu fyrir fullveldi Íslands. Þar eru íslenskir sjómenn í fylkingarbrjósti.
Til hamingju með daginn
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.