Fimmtudagur, 15. janúar 2015
Hvert fór áróðursfé Evrópustofu
Evrópusambandið opnaði áróðurs- og kynningarmiðstöð á Íslandi haustið 2010. Heimildin til að reka hér slíka miðstöð byggðist á skuldbindingum sem Íslendingar gengust undir sem umsóknarríki.
Sendiherra ESB hér á landi fór ekkert í launkofa með hver væri tilgangur með "Evrópustofu", en hann fólst í víðtækri gagnasöfnun um skoðanir almennings og afstöðu og hvernig mætti hafa áhrif á viðhorf Íslendinga til inngöngu í ESB. Í viðtali við Morgunblaðið 10.11. 2010 sagði hann m.a.:
"Við viljum skilja upplýsingaþörf ólíkra hópa. Hvað veit fólk og hvað veit það ekki? Hver eru, svo dæmi sé tekið, viðhorf og upplýsingaþörf ungs fólks, háskólafólks eða ellilífeyrisþega? segir Timo Summa, formaður sendinefndar ESB á Íslandi, um fyrirhugað kynningarstarf sambandsins á Íslandi næstu misserin.
Við lítum á mismunandi hópa og hver afstaða borgarbúa eða fólks á landsbyggðinni er til aðildar. Við viljum vita þetta svo við getum undirbúið kynningargögn í samræmi við það. Við viljum vita hvar eyður eru í þekkingunni og reynum í framhaldinu að leysa það.
Spurður um umfang "kynningarátaksins" svarar Summa því til að milljón evra, eða 155 milljónir króna, muni renna til kynningar á ESB á Íslandi á næstu tveimur árum. Í fyrstu sé gert ráð fyrir fjórum til fimm starfsmönnum sem hafi það að fullum starfa að dreifa upplýsingum um sambandið til almennings. Þá muni skrifstofan í Aðalstræti og útibú hennar á Akureyri styðja fyrirlestrahald og annað kynningarstarf. ESB kortleggur Ísland
Samkvæmt Vínarsáttmálanum um réttindi, skyldur og friðhelgi diplómata mega erlendir sendiherrar ekki blanda sér í innanríkismál gistiríkisins.
Þá er diplómatisk staða sendiherra ESB á Íslandi óljós því að aðeins ríki og formleg sambandsríki mega halda úti sendiherrum í öðrum löndum á grundvelli Vinarsáttmálans.
Bein afskipti sendiherra ESB og starfsemi áróðursskrifstofu Evrópusambandsins eru því brot á fullveldi Íslands. Hins vegar sækir Evrópusambandið sér heimild til víðtækrar áróðursstarfsemi hér á landi í skuldbindingarnar sem Ísland gekkst undir sem umsóknarríki að ESB. Þess vegna er mikilvægt að afturkalla umsóknina og loka Evrópustofu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.