Mánudagur, 14. júlí 2014
Heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni látið blæða út
Leggja á niður fjölda heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni frá 1. ágúst. Ráðningar starfsmanna og þjónusta við núverandi heilbrigðisstofnanir er í fullkominni óvissu og uppnámi.
Skorið hefur verið á allt samráð við heimafólk um skipan heilbrigðismála í héraði. Bæjarstjóri Vesturbyggðar á Patreksfirði kallar framkomu stjórnvalda í heilbrigðismálum Vestfjarða „ruddaskap“. Skagfirðingar segja ráðherra hafi komið í bakið á þeim.
Ráðnir verða sérstakir landshlutaforstjórar frá 1. ágúst fyrir „nýja stofnun“, hreyturnar af þjónustunni sem eftir verður í fjórðungunum.
Heilbrigðisstofnanir skornar í heilum landshlutum
Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að heilbrigðisstofnanirnar á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri og Húsavík verði lagðar niður frá 1. október n.k. Sú starfsemi sem þá verður eftir á svæðinu fer undir "nýja stofnun", Heilbrigðisstofnun Norðurlands frá 1.ágúst, sem tekur yfir þjónustu við íbúa frá Austur-Húnavatnssýslu í vestur um Skagafjörð, Eyjafjarðarsýslu , Suður- og Norður-Þingeyjarsýslur í austur.
Sama er gert með heilbrigðisstofnanirnar frá Patreksfirði til Bolungarvíkur sem verða lagðar af og sameinaðar í eina á Ísafirði fyrir alla Vestfirði. Einnig á að sameina heilbrigðistofnanir á Suðaustur-, Suðurlandi og Vestmannaeyjum í eina. Ásthildur Sturludóttir sveitarstjóri á Patreksfirði mótmælir kröftuglega en nýlega var sýslumannsembættið þar lagt niður og fært til Ísafjarðar í nafni hagræðingar og byggðastefnu. Samgöngur eru þó nánast engar milli þessara staða 7-8 mánuði á ári.
Ráðherra óttaðist sveitarstjórnarkosningar
Augljóst er að heilbrigðisráðherra hefur ekki þorað að birta þessa ákvörðun sína fyrir sveitarstjórnarkosningar af ótta við afleiðingar hennar á úrslit þeirra. Nú er langt í næstu kosningar og hægt að haga sér að vild við íbúana.
Í samræmi við fyrri yfirlýsingar úr Skagafirði er vænst harkalegra mótmæla frá sveitarstjórn Skagafjarðar en ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja niður sjálfstæða Heilbrigðisstofnun á Sauðárkróki þykir mikil niðurlæging fyrir ráðherra og þingmenn stjórnarflokkanna í kjördæminu og áfall fyrir íbúana og nýjan meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Sveitarfélaginu Skagafirði.
Öðruvísi mér áður brá
Komið var í veg fyrir að hliðstæð áform ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá árinu 2008 næðu fram að ganga.
Sem ráðherra neitaði ég á sínum tíma að samþykkja tillögur út úr ríksstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem fólu í sér að leggja þessar heilbrigðisstofnanir niður og skerða enn frekar starfsemi þeirra.
Skagfirðingum ætti að vera það í fersku minni eftir mikinn darraðardans, þegar Ögmundur Jónasson þáverandi heilbrigðisráðherra afturkallaði reglugerð fyrirrennara síns um að leggja Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki niður og færa stjórnun hennar og starfsemi til Akureyrar. Lýsti Ögmundur því á yfir sem ráðherra að stjórnvöld myndu aldrei breyta skipan heilbrigðismála í héraði án vilja og samþykkis heimamanna.
Tvískinnungur þingmanna
Mér kemur á óvart að þingmenn Norðvesturkjördæmis skuli standa að þessum aðgerðum gagnvart heilbrigðisstofnunum í þessum landshlutum með skagfirska ráðherrann Gunnar Braga Sveinsson og Einar Kristinn Guðfinnsson þingforseta í broddi fylkingar, að ótöldum sérlegum aðstoðarmanni forsætisráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni alþingismanni.
Ég minnist málflutnings þeirra og tillöguflutnings á Alþingi þegar þeir voru í stjórnarandstöðu og loforða fyrir síðustu Alþingiskosningar, en þá börðu þeir sér á brjóst og sögðust myndu vaða eld og brennistein til að verja sjálfstæði og þjónustustig þessara heilbrigðisstofnana.
Nú gefst sömu þesum þingmönnum og ráðherra tækifæri til að standa við gefin loforð og yfirlýsingar á fjöldafundum með heimamönnunm og verja heilbrigðisstofnanirnar í kjördæminu.
Góð heilbrigðisþjónusta – Líftaug byggðanna
Ég hygg að mörgum Norðlendingnum finnist mjög að sér vegið af þingmönnum sínum óháð því hvar skrifstofa Heilbrigðisstofnunar Norðurlands verði staðsett. Við erum minnug þess hve hart var tekist á um heilbrigðismálin fyrir um fjórum árum á fjöldafundum í Skagafirðiog víðar.
Sjálfssagt er að endurskoða ýmsa skipan heilbrigðismála í héraði við breyttar aðstæður en þá ber að gera það að velathuguðu máli og í nánu samráði við heimamenn.
Rakalaus gjörningur heilbrigðisráðherra
Engin rök hafa verið færð fyrir þessum aðgerðum nú önnur en þau að spara og skera niður þjónustu á landsbyggðinni. Hinsvegar er góð og örugg almenn heilbrigðisþjónusta í nærumhverfi fólks forsenda fyrir þróun byggðar og jafnræði til búsetu í landinu
Mun réttara hefði verið að gera úttekt á því hvernig til hefur tekist með uppstokkun og niðurskurð og sameiningu heilbrigðisþjónustunnar á Austurlandi, Vesturlandi og víðar á undanförnum árum áður en ráðist væri í nýja óvissuferð með viðkvæma heilbrigðisþjónustu í öðrum landshlutum undir merkjum „hagræðingar“.
Sárt að horfa á heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar brotna niður
Mér þykir sárt að sjá heilbrigðisstofnanirnar og þjónustu þeirra á landsbyggðinni molna niður og blæða út í ákvörðunum stjórnvalda.
Skorið hefur verið á allt samráð við heimafólk um skipan heilbrigðismála í héraði. Bæjarstjóri Vesturbyggðar á Patreksfirði kallar framkomu stjórnvalda í heilbrigðismálum Vestfjarða „ruddaskap“.
Grípið til varnar fyrir heilbrigðisþjónustuna!
Mér verður hugsað til þeirra sem studdu Framsókn og Sjálfstæðisflokk til valda í Skagafirði síðastliðið vor. Skagfirðingar hafa staðið saman um að verja Heilbrigðisstofnun sína.
Þar hlýtur nú að verða tekin upp hörð vörn fyrir Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og ráðherrann látinn afturkalla þessa ákvörðun með svipuðum hætti og gert var með stuðningi og baráttu heimamanna létum afturkalla ákvörðun sama eðlis í ársbyrjun 2009.
Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni molna niður og blæðir út í ákvörðunum stjórnvalda
( Birtist sem grein í mbl., 14.07. 2014)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.