Valdabaráttan á Alþingi

Það dylst engum sem þekkja til þingstarfa að umræðan um ESB inni á þingi snýst takmarkað um málefnið sjálft, heldur er hún valdabarátta milli einstaklinga innan og milli flokka stjórnarandstöðunnar.

Innan Samfylkingarinnar, sem rær lífróður, fer fram grímulaus barátta um framtíðarforystusætið milli Árna Páls Árnasonar og Katrínar Júlíusdóttur. Hún birtist m.a. í því, hvort þeirra getur haft hæst og komið að stóryrðum til að fá athygli innan flokks og  utan. Katrín er talin hafa skorað stig með því að grípa tækifærið og kalla Bjarna Bemediktsson, þann hógværa oddvita Sjálfstæðisflokksins " helvítis dóna" og komast upp með það.

Efnisleg umræða um stöðu ESB-samninganna er ekki mikil né heldur þá staðreynd að ferlið er stopp. Allir sjá að ekki er hægt að ganga lengra í eftirgjöf gangvart ESB nema afturkalla þau rauðu strik, sem Alþingi sjálft setti við samþykkt þingsályktunartillögunnar 17. júlí 2009 um aðildarumsókn.

ESB- umræðan er hinsvegar góð fyrir einsmálsstefnu Samfylkingarinnar til að fá aftur sess í hinni pólitísku umræðu. Sérstaklega á það við á vettvangi kratísks kjósendahóps sem rokkar á milli Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Bjartrar framtíðar, kratanna í Vinstri grænum og Samfylkingar.

Björt framtíð og Samfylkingin togast á um það hvor gleypir hinn, hver getur haft hæst. Píratar halda sig eðlilega til hlés í þessari umræðu. Innganga í ESB er ekki ofarlega á lista margs þess unga fólks sem styður í Pirata um þessar mundir, jafnvel þvert á móti.  Píratar  eiga þar samleið með nýbylgju ungs fólks í ESB löndunum sem eru á móti aukinni miðstýringu frá Brussel og kenna stefnu ESB um gríðarlegt atvinnuleysi ungs fólks í Evrópusambandslöndunum. Þar eru því sóknarfæri Pírata hér á landi,

 Vg lendir þarna alls staðar á milli.  Það treysta þeim fáir í ESB málunum og taka lítið mark á yfirlýsingum þeirra, sem gjarnan eru út og suður. Lái þeim hver sem vill

Þeim ríður þó á að ná aftur sérstöðu Vg í ESB málinu og færa sig á byrjunarreit í stefnu flokksins. Slíkir tilburðir mæta þó enn harðri andstöðu s.k. flokkseigendafélags sem ræður endanlega ferð. Vg hefur tapað  stórum hluta landsbyggðarfylgisins og á nú á hættu að skiptast upp milli Bjartrar framtíðar og Pírata.

Esb umræðan er þess vegna,  því miður, nýtt í allt annað pólitískt uppgjör og tafl en um afturköllun umsóknarinnar að ESB, sem er þó mál dagsins.

Afgerandi meirihluti landsmanna er hins vegar algjörlega á móti ESB-aðild og vill fá tækifæri til þess að koma þeirri skoðun rækilega á framfæri og fá umsóknina endanlega út úr heiminum. Traust á stjórnmálaflokkum til þeirra verka er eðlilega  takmarkað. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eiga því allt undir að standa við ákvörðunina um afturköllun umsóknarinnar.

 ESB- umræðan endurspeglar því  þessa dagana fyrst og fremst deilur og átök um stöðu einstaklinga og hópa um forystu innan  stjórnarandstöðuflokkanna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband