Laugardagur, 1. mars 2014
ESB krafðist gjörbyltingar á íslenskum landbúnaði og matvælaframleiðslu.
Koma verður ný samþykkt Alþingis um algjöra eftirgjöf á grunngerð íslensks landbúnaðar og matvælavinnslu ef halda á aðlögunarferlinu áfram á þeim forsendum sem ESB krefst. Fyrir því er enginn pólitískur vilji sem betur fer.
Þjóðin vill halda sínum landbúnað og því eru aðlögunarviðræðurnar við ESB stopp.
Evrópusambandið býður umsóknarríki aðeins tímabundna aðlögun að lögum og regluverki sambandsins. Sumir kalla það sérlausnir. Umsóknarríkið sækir um á forsendum ESB og heitir því að gangast undir og samþykkja sáttmála, vinnureglur og lagaverk Evrópusambandsins. Þeir, sem halda því fram að um tvíhliða samninga sé að ræða og nýtt samband verði til með hverju nýju ríki eru vísvitandi að beita blekkingum.
Rétt er að benda á að hver fagráðherra fer með samninga og ber efnislega ábyrgð á málaflokkum sem heyra undir hans ráðuneyti í samræmi við samþykktir Alþingis.
Ég sem landbúnaðarráðherra kynntist því vel kröfum og vinnubrögðum ESB í landbúnaðarmálum.
Eins og allir vita er grundvallar munur á uppbyggingu landbúnaðar, stjórnsýslu og stoðkerfis hans á Íslandi og í ESB.
Á Íslandi leggjum við áherslu á fæðuöryggi og framleiðslustöðugleika, byggðamál og innlendan matvælaiðnað í einstaka greinum. Lagaumgjörðin um atvinnugreinar í landbúnaði eru því með gjörólíkum hætti á Íslandi annarsvegar og ESB - löndum hinsvegar. Um það var enginn ágreiningur.
Þetta kom greinilega fram í niðurstöðum svokallaðra rýniskýrslna þar sem greint var hverju Ísland þyrfti að breyta til að falla að laga- og stofnanaumhverfi landbúnaðar í ESB;
Í lok rýnivinnunnar um landbúnað setti samninganefnd ESB fram skriflega kröfu og fyrirspurn um:
" Hvenær og hvernig ætlar Ísland að aðlaga sinn lagaramma hvað varðar lögbært stjórnvald, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu, tilnefningu vottunaraðila "?. En þetta eru allt grunnatriði í skipulagi landbúnaðarmála í ESB- löndum.
Þessu svaraði ég sem ráðherra á eftirfarandi hátt:
"Við greiningu og samanburð á lagareglum og stjórnsýslu í landbúnaðarmálum á Íslandi við hina almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem hefur komið fram til þessa, hefur þegar komið fram verulegur munur milli aðila á lögum og framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Umbreyting frá hinu íslenska fyrirkomulagi á þessu sviði mun tvímælalaust kalla á verulegar breytingar á lagaumhverfi og aukin umsvif stjórnsýslu, skýrslugjöf og eftirlit og fjölgun stofnana sem ekki er nauðsynleg til að framkvæma þá landbúnaðarstefnu sem hefur gilt á Íslandi í dag.
Ubdirbúningur þeirra atriða sem framkvæmdastjórnin spyr um , þ.e.a.s. ákvörðun um lögbært stjórnvald sem fer með greiðslur til landbúnaðarins, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu og tilnefningu vottunarðila krefst, eins og fram kemur af spurningunni, að aðlaga þarf ramma íslenskra laga að regluverki ESB.
Stefna íslenskra stjórnvalda er skýr um að ekki verði ráðist í neina aðlögun að regluverki ESB fyrr en að staðfestur samningur um aðild liggur fyrir. Auk þess er það álit stjórnvalda að vegna smæðar landsins sé óþarft að setja á fót allt það stofnanakerfi á Íslandi ef til aðildar kæmi, sem kynnt hefur verið sem nauðsynlegt til að framkvæma hina almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins . Um það þurfi að semja milli aðila þegar að samningum kemur.
Af áðurnefndum ástæðum mun Ísland ekki hefja undirbúning að skipulags-og lagabreytingum né aðlaga sinn lagaramma fyrr en að lokinni samningagerð, takist samningar um aðild og fullgildingu aðildarsamnings að lokinni þjóðaratkvæðgreiðslu á Íslandi og samþykkt hans af samningsaðilum á formlegan hátt ".
Skemmst er frá því að segja að þetta skýra og skorinorða svar mitt og höfnun á kröfu Evrópusambandsins um fyrirfram aðlögun varð til þess að framkvæmdastjórnin setti opnunarskilyrði á samningskaflann í nóv. 2011 og neitaði að hefja viðræður fyrr en lögð hefði verið fram "viðunandi" aðgerðaráætlun um breytingar á íslenskum lögum og uppbyggingu nýs stofnanakerfis sem væri í samræmi við það sem gilti í ESB - löndum.
Ég hafði áður gert "varnarlínur" Bændasamtaka Íslands að grunnskilyrðum mínum sem ráðherra í samningaviðræðunum. En þær eru einnig tíundaðar sem viðmið í greinargerð utanríkismálanefndar með þingsályktunartillögunni. Þannig hafði ég á vissan hátt bundið hendur eftirmanns míns því að hann yrði þá með bréfi og formlega að kynna breytta afstöðu fagráðherrans í málaflokknum. En á þeim forsendum sem ég kynnti höfðu Bændasamtökin tekið þátt í vinnunni við landbúnaðarkaflann. Og samningamenn þeirra héldu síðan fast í þær forsendur. Þegar svo stjórnvöld höfðu í júlí 2012 unnið "viðunandi" aðgerðaáætlun að mati ESB var Íslendingum boðið að leggja fram samningsafstöðu.
Þótt einhverjir á vegum nýs ráðherra og samningshópsins hafi í framhaldi af því unnið drög að samningsafstöðu í landbúnaði fyrir Ísland, sem gengi upp gagnvart ESB var ljóst, að stjórnvöld höfðu engan pólitískan styrk hér innanlands til að leggja hana fram. Og þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir í utanríkismálanefnd um að fá að sjá drögin var því hafnað. Í framhaldi af því dagaði frekari samningsvinna uppi, uns hlé var gert á viðræðunum í byrjum árs 2013, enda kosningar í nánd!
Samningaviðræður í landbúnaði urðu í raun formlega stopp með opnunarskilyrðum ESB í nóv 2011. Þá var ljóst að ESB myndi í raun ekki halda áfram samningsvinnunni nema Íslendingar samþykktu fyrirfram að breyta landbúnaðarlöggjöf sinni og ynnu samkvæmt því. Fyrir því var hinsvegar hvorki heimild fyrir af hálfu Alþingis né pólitískur vilji og alls ekki í aðdraganda Alþingiskosninga.
Það er því ákveðin þversögn í eftirfarandi í vangaveltum í skýrslu Hagfræðistofnunar:
"Ekki tókst að klára vinnu við samningsafstöðu Íslands áður en viðræðum var frestað. Af viðræðum við ýmsa aðila má áætla að drög að samningsafstöðu í þessum málaflokki hafi verið umdeild og ekki hafi tekist að sætta ólík sjónarmið. Af viðræðum við embættismenn í Evrópusambandinu verður ekki annað ráðið en að þeir hafi ekki séð fyrir óleysanleg vandamál og þrátt fyrir að ekki hefði verið hægt að semja um undanþágu frá niðurfellingu tollverndar hefði mátt ræða hvernig mætti koma til móts við innlenda framleiðendur til að bæta þeim upp tap af afnámi verndartolla".
Umbylting á markmiðum, grunngerð og stjórnsýslu íslensks landbúnaðar er stórpólitískt mál og um það var grundvallar ágreiningur við ESB. Óljós tilvitnun í töluð orð og loðinn texta embættismanna ESB er að mínu mati ekki mikils virði. Mín reynsla sem ráðherra var sú að hafa bæri allt skriflegt og skorinort sem þar færi á milli ef ætti að vera mark takandi á.
Eins og ég skil stöðuna í samningum um landbúnað við ESB þá yrði að koma til ný samþykkt Alþingis um heimild til að semja um gjörbyltingu íslenska landbúnaðarkerfisins og markmiðum atvinnugreinarinnar ef á að vera hægt að halda áfram aðlögunarviðræðum við ESB. á þeim forsendum það sambandið krefst.Um annað er ekki að ræða.
Staðan er einfaldlega sú að þetta ferli, hvort sem menn kalla það samninga eða aðlögun er efnislega og pólitískt algjörlega stopp af beggja hálfu og getur ekki farið af stað aftur nema að Alþingi gefi eftir og breyti formlega þeim fyrirvörum sem settir voru í greinargerðinni með þingsályktuninni. Og fyrir því er enginn pólitískur meirihluti á Alþingi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.3.2014 kl. 02:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.