Miðvikudagur, 26. febrúar 2014
Tillaga okkar Atla Gíslasonar frá í okt 2012 um
Þannig hljóðar þingsályktunartillaga okkar Atla Gíslasonar frá því fyrr í haust. Hún kemur vonandi til meðferðar Alþingis á næstu dögum.
Engar varanlegar undanþágur frá lögum og regluverki ESB í boði.
Í greinargerð með tillögunni segir:
Alþingi samþykkti með þingsályktun hinn 16. júlí 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt samþykkti þingið að fylgja við aðildarviðræðurnar ítarlegu nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem kvað á um ákveðna meginhagsmuni Íslands sem settir voru sem skilyrði og afmörkuðu umboð ríkisstjórnarinnar til aðildarsamninga. Nú rúmum þremur árum síðar liggur fyrir að umsóknarferli Íslands að ESB verður ekki fram haldið nema vikið sé í verulegum atriðum frá þeim meginhagsmunum sem meiri hluti utanríkismálanefndar dró fram í áliti sínu (þskj. 249, 38. mál 137. löggjafarþings) og Alþingi gerði að skilyrðum sínum við samþykkt ályktunarinnar 16. júlí 2009. Umboð ríkisstjórnarinnar til að halda áfram aðlögunar- og aðildarvinnu er því ekki lengur fyrir hendi og telja flutningsmenn þessarar tillögu að viðræðum skuli hætt og umsóknin afturkölluð.
Þjóðin fái að segja sitt áður en lengra er haldið
Flutningsmenn telja jafnframt brýnt að ekki verði gengið að nýju til viðræðna við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar Íslands að sambandinu. Engin rök hníga að því að Ísland sæki um aðild að ríkjasambandi ef ekki er almennur vilji til aðildar.
Komið hefur í ljós að umsóknar- og aðildarferli Íslands að ESB er með allt öðrum hætti en haldið var fram af talsmönnum þess þegar umsóknin var lögð fram sumarið 2009. Kröfur ESB eru einhliða og ganga mun lengra en Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að byggja á sem samningsgrundvöll. Sett hafa verið einhliða opnunarskilyrði við einstaka kafla en aðrir eru óopnaðir af hálfu ESB og allt samningsferlið lýtur algerlega geðþótta ESB. Jafnframt er krafist fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana að ESB án þess að niðurstaða sé fengin í viðræðunum. Þá verður ekki horft fram hjá því að aðildarferlið er kostnaðarsamt sem og aðild að sambandinu.
Verið að binda aðildarferlið með milljörðum króna til næstu ára
Utanríkisráðherra hefur sjálfur sagt að aðild að sambandinu mundi fela í sér umtalsvert meiri kostnað vegna krafna ESB um uppstokkun og aukið umfang stofnanakerfis landsins (B-mál 699, 91. fundur á 138. löggjafarþingi). Þar sem komið hefur í ljós að krafist er fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana fellur þessi kostnaður augljóslega til meðan á umsóknarferlinu stendur.
Fullveldisframsal
Framsal á fullveldi og einhliða kröfur og skilyrði sem ESB hefur sett í viðræðunum eru með öllu óásættanlegar fyrir íslenska hagsmuni og sjálfsforræði. Kröfur ESB ganga þvert gegn þeim meginhagsmunum og skilyrðum Íslands sem Alþingi samþykkti að fylgja hinn 16. júlí 2009. Framhald aðlögunar Íslands að ESB og eftirgjöf í stórum hagsmunamálum í alþjóðaviðræðum stríðir gegn framtíðarhagsmunum Íslands.
Þá hafa ESB og fulltrúar þess nú þegar ástundað beina íhlutun í íslensk innanríkismál í skjóli umsóknarinnar, sbr. ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars sl., og krafist fylgispektar Íslands á alþjóðavettvangi sem er með öllu ólíðandi af Íslands hálfu. Efnahagsleg inngrip ESB í íslenskt þjóðfélag hafa alvarlegar afleiðingar og eru ekki í samræmi við forsendur umsóknarinnar. Það felur annars vegar í sér að með því er verið með peningagjöfum, sem stýrt er frá Brussel, að hafa áhrif á atvinnu, afstöðu til ESB-aðildar og almenna skoðanamyndun í landinu og hins vegar að um er að ræða falskar væntingar um áframhaldandi verkefni en þeim mun ljúka jafnskjótt og þetta gjafafé er upp urið.
Makríldeilan dæmigerð fyrir yfirgang ESB
Þá má nefna makríldeiluna og áform og hótanir Evrópusambandsins í garð Íslendinga um viðskiptaþvinganir, samtímis því sem aðildarviðræður standa yfir. Sýna þær hótanir best hvernig þetta ríkjasamband beitir sér gegn smáríki eins og Íslandi. Samningur ríkisstjórnarinnar um Icesave hefur ætíð verið skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar, enda hefur ESB nú gerst formlegur málsaðili og ákærandi gegn Íslandi í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum.
Jafnframt hafa forsendur á Evrópusambandssvæðinu sjálfu breyst í veigamiklum atriðum. Hið sama á við um starfshætti sambandsins og pólitísk tilræði þess við sjálfstjórnarrétt aðildarríkjanna, einkum á sviði efnahagsmála, sem felur í sér að eftirlit og ákvarðanir um þann málaflokk innan hvers ríkis eru færðar frá sambandsríkjunum sjálfum til miðstjórnarvaldsins í Brussel. Enn fremur hefur það komið í ljós að hin sameiginlega mynt, evran, sem var talin fela í sér vörn fyrir viðkomandi land, sem ætti í efnahagsörðugleikum, hefur þvert á móti magnað upp vanda ríkjanna og stefnir þeim í átt að gjaldþroti. Þar með eru brostnar eða gjörbreyttar veigamiklar forsendur sem lágu fyrir við samþykkt þingsályktunartillögunnar á sínum tíma.
Í ljósi þess hvernig umsóknar- og aðildarferlið hefur þróast þvert á vilja og hagsmuni íslensku þjóðarinnar telja flutningsmenn tillögunnar brýnt að Alþingi samþykki að afturkalla umsókn sína um aðild að ESB. Og umsóknin fari ekki gang aftur fyrr en þjóðin hefur verið spurð hvort hún vilji ganga í ESB.
Flutningsmenn tillögunnar eru Atli Gíslason og Jón Bjarnason
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.