Rauða matstofan - Guðni Guðnason minning

Rauða Matstofan á Ásvallagötu 16 í Reykjavík var eins og alþýðuháskóli fyrir róttækan sveitapilt og menntskæling , en þarna var ég í fæði veturinn 1963-1964. Hún Guðrún, sem rak  Matstofuna á heimili sínu var ekkja, maður hennar hafði  fallið frá ungum börnum og ég minnist hennar sem einstaklega hlýrrar konu. Hún var  eins og móðir kostgangaranna,  þó svo aldursbil þeirra væri breitt.  Ekki veit ég hversu lengi " Rauða matstofan" hafði borið þetta nafn en „rauð“ var hún þau ár sem ég hafði þar kynni. Og  þarna leituðu einkum  námsmenn utan af landi og verkamenn sem bjuggu einir eða voru tímabundið í bænum. 

Þarna kynntist ég Guðna Guðnasyni, sem bjó  í sambúð með Guðrúnu á Ásvallagötu 16.  Þau voru hvort öðru til halds og trausts.  Guðni var afar glettinn og  glaðlyndur, víðlesinn og margfróður.  Við matborðið var gjarnan tekist á um pólitíkina, einarða verkalýðsbaráttu. Þá var það Guðni sem stýrði umræðunni og gaf ekki eftir.  Þegar nálgaðist suðupunkt  og  Guðrúnu fannst komið nóg, þjappaði Guðni efninu saman  í einfalt og  auðskiljanlegt mál hins sanna félagshyggjumanns,  kommúnista og verkamannsins á eyrinni. Hann hafði bæði hugmyndafræðina og raunveruleikann á hreinu.  Undir ljúfu og hægu yfirbragðinu leyndist  kappsfullur og einlægur stríðsmaður  fyrir bættum kjörum allra þeirra sem hallaði á í samfélaginu.  Orð hans voru okkur sem  óskráð  lög og speki  hins sanna sósialista.

Hann hafði  sterk orð um það þá hversu honum þótti  verkalýðsforystan vera hugdeig og værukær.  Mér er sem ég sjái viðbrögð Guðna við að horfa  í beinni útsendingu á  forseta ASÍ  faðma heitt og innlega  viðsemjanda sinn og andstæðing við lok smánar kjarasamninga sem hafa nú verið felldir af stórum hluta verkafólks.

Guðni  gæti hafa spurt hvort forseti ASÍ hafi nokkurn tíma faðmað  almennan verkamann svo heitt, stoltur yfir árangri beittrar baráttu.  Guðni, þessi einlægi baráttumaður hreif aðra með sér, hleypti þeim kapp í kinn hvar sem hann fór.

Guðni Guðnason fæddist á Eyjum í Kjós 2. ágúst 1915. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík miðvikudaginn 15. janúar 2014. Útförin fór fram 24. jan. sl.

Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1937 og varð cand. juris. frá Háskóla Íslands 27. janúar 1944. Starfaði að afloknu prófi á Ísafirði sem trúnaðarmaður verðlagsstjóra til ársloka 1944; var síðan ritari húsaleigunefndar Reykjavíkur til október 1946, en réðst þá sem fulltrúi á málflutningsskrifstofu Einars B. Guðmundssonar og Guðlaugs Þorlákssonar og starfaði þar til mars 1949 er hann fór til Danmerkur að kynna sér tryggingamál. Héraðsdómslögmaður 27. apríl 1946. Rak málflutningsstofu í Reykjavík 1950-1953. Stundaði sjómennsku og byggingarvinnu frá júní 1953 til október 1955. Fulltrúi hjá Steini Jónssyni hdl. í Reykjavík frá október 1955 til október 1957. Fulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ritstjóri tímaritsins Sveitarstjórnarmála frá október 1957 til ársloka 1959. Byggingaverkamaður í Reykjavík 1960 – 1963. Fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá mars 1964 – mars 1966. Fulltrúi hjá Árna Gunnlaugssyni hrl. í Hafnarfirði frá mars 1966 til júní 1978. Rak eigin málflutningsskrifstofu í Reykjavík frá júní 1978 til júní 1988. Félags- og trúnaðarstörf: Í stjórn Félags róttækra stúdenta 1939-1940. Í stjórn Sósíalistafélags Reykjavíkur 1964-73, formaður 1970-1973. Í stjórn Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar frá 1964-1984. ( Mbl.24.01.2014)

Nú er þessi höfðingi fallinn frá nær aldargamall. Það fór vel á því að bera kistu Guðna úr kirkju undir flutningi  "Nallans" alþjóðlegs baráttusöngs verkamanna.

  Einföld,  tær og kærleiksrík  lífsspeki  Guðna Guðnasonar hefur verið mér hugstæð frá okkar fyrstu kynnum.

Ég þakka Guðna stundirnar á „Rauðu Matstofunni“  og annarra góðra  síðar þegar leiðir okkar  lágu saman.

Blessuð sé minning Guðna  Guðnasonar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband