Fimmtudagur, 12. desember 2013
Blóðtaka fyrir Borgfirðinga
Að leggja niður Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og láta hann hverfa inn í Háskóla Íslands, yrði gríðarleg blóðtaka fyrir Borgarfjarðarhérað, allt Vesturland, atvinnuvegi og búsetu hinna dreifðu byggða, landið sem heild. Hvanneyri í Borgarfirði hefur verið með sæmd eitt öflugasta skólasetur landsins í hátt á annaðhundrað ár. Þau skammsýnu áform um að leggja niður Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri ganga jafnframt í berhögg við yfirlýsta stefnu núverandi ríkisstjórnar í landsbyggðarmálum.
Þingmenn kjördæmisins sem ég þekki lofuðu því fyrir kosningar að standa vörð um sjálfstæði háskólanna í kjördæminu, Hvanneyri, Bifröst og Hóla í Hjaltadal. Trúi ég ekki á annað fyrr en á reynir að staðið verði við þau gefin loforð enda ekkert vit í öðru.
Íbúar Borgarfjarðar bregðast hart við
Á fjölmennum íbúafundi Borgfirðinga nýverið var samþykkt áskorun á stjórnvöld: Fundurinn varar eindregið við þeim hugmyndum að sameina háskóla á landsbyggðinni háskólum á höfuðborgarsvæðinu og auka þannig miðstýringu háskólanáms hér á landi. Tryggja þarf rekstrargrundvöll og sjálfstæði Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Hollvinasamtök Hvanneyrar hafa ályktað í sömu veru. Fólk skilur alvöruna, sér hvað er í húfi.
Háskólaráð LbhÍ hefur lagt áherslu á samstarf en ekki á samruna og að starfsemin verði byggð upp á Hvanneyri.
Nú er það ekki síst héraðsins að fylgja málum eftir og snúa því á heillavænlegri brautir.
Ég hafnaði þessum tillögum í minni ráðherratíð
Tillögur um að leggja niður Landbúnaðarháskólann komu upp í ráðherratíð minni, en ég hafnaði þeim algjörlega. Ég lýsti þeirri afstöðu sem ráðherra að Landbúnaðarháskóli Íslands ætti að vera sjálfstæður og höfuðstöðvar hans að vera á Hvanneyri. Sama gilti einnig um Hóla. Naut ég í þeim efnum afdráttarlauss stuðnings forystumanna Bændasamtaka Íslands og fjölmargra annarra á þessum sviðum. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að rannsóknir og kennsla LbhÍ líði fyrir það að vera í sjálfstæðum háskóla síður en svo.
Í nýlegri alþjóðlegri úttekt á gæðum í starfi landbúnaðarháskólanna er bent á að sérstaðan, náin tengsl við atvinnulífið og nærumhverfið sé styrkur skólanna. Sá styrkur getur glatast við að þeir hverfi inn í aðra fjarlæga stofnun.
Útibúin munu deyja
Oft er sem stjórnsýslunni vaxi í augum smæðin og fámennið utan Reykjavíkur og sú skoðun virðist of almenn að engar almenningsstofnanir geti þrifist fyrir ofan Ártúnsbrekkuna.
Sameining og aukin miðstýring eru engin töfraorð. Það getur falið í sér ýmsa kosti að vera "smár og knár. Auk þess eiga smæð og fámenni við Ísland allt.
Það er tálsýn og ekki byggt á heilindum að svipta skólann sjálfstæði en lofa svo á móti einhverri tiltekinni starfsemi um einhver ár. Slík loforð hefur enginn á valdi sínu og er hreinn blekkingarleikur. Kerfislæg miðstýring fjarlægra höfuðstöðva tekur þá öll völd.
Missi Landbúnaðarháskólinn sjálfstæðið munu tengslin við héraðið, atvinnuvegina og landsbyggðina dofna og þynnast út.
Í umræðunni um Kennaraháskóla Íslands 2007 sagði Jón Torfi Jónasson prófessor og fyrrum sviðsforseti við Menntavísindasvið Háskóla Íslands:
Þess vegna hef ég talið skynsamlegt að á Íslandi væru fjölmargir háskólar, hver með sitt reglukerfi, vegna þess hve regluveldin eru ráðrík. Ég tel þá stefnu stjórnvalda, sem mér sýnist birtast í þessum lögum, að setja alla ríkisháskólana inn í sama reglukerfið með sameiningu mjög misráðna. Sömuleiðis tel ég ásókn HÍ í stærri köku sem fæst með sameiningu stofnana ekki spegla skynsamlega framtíðarsýn um uppbyggingu fjölbreyttrar háskólamenntunar á Íslandi.
Ég er sama sinnis og þessi virti prófessor við Háskóla Íslands
Háskólar landsbyggðarinnar sjálfstæði og samvinna er þeirra auðlind
Það er mjög mikilvægt að hafa í huga styrkinn sem sjálfstæðið gefur. Útibúin, fjarlægustu deildirnar munu ávallt mæta afgangi í fjölskyldu annarra stærri stofnana, sem allar hafa fastar hugmyndir um eiginn vöxt og viðgang. Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri hefur byggt upp víðtækt samstarf við erlendar menntastofnanir, verið í forystu fyrir auknu samstarfi meðal háskólanna í landinu m.a. í gegnum Net opinberra háskóla sem er hægt að efla enn meir.
Landsbyggðarháskólarnir eru meira en tölur á excelskjali, þeir eru heil samfélög með blómlega byggð, mikla þekkingu og öflugt atvinnu- og menningarlíf að baki sér. Með því að leggja niður Hvanneyri, Hóla eða Bifröst sem sjálfstæð menntasetur munu heilu samfélögin og við öll verða miklu mun fátækari eftir. Látum það ekki gerast.
Grípum til varnar og sóknar fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.