Sáttin um Ríkisútvarpið ! - útvarp allra landsmanna

 Það er alveg hárrétt að sáttin um Ríkisútvarpið var rofin með hlutavélagavæðingu þess, Ríkisútvarpið ohf.    Í beinu framhaldi af því var svæðisútvörpunum lokað á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Þannig var skorin á bein tengsl Ríkisútvarpsins við landið allt og dagskráin varð sjálfhverfari og snerist upp í samkeppni við aðra miðla á þröngu sviði.

„Sátt um Ríkisútvarp í almannaeigu var ekki rofin með niðurskurðinum nú. Sáttin var rofin með ohf-væðingunni svokölluðu. Þá var tekin upp sú grímulausa stefna að um fyrirtæki í samkeppnisrekstri væri að ræða. Þess vegna borgar sig að segja upp dagskrárgerðarfólki á Rás 1 en hrófla ekki við markaðs- eða auglýsingadeildinni. Og þess vegna meta stjórnendur stofnunarinnar það svo að yfirboð á boltaleikjamótum úti í heimi séu fyllilega réttlætanleg.“ (Mikael Torfason, Fréttablaðið 7.des. 2013 )                      

Ofan í kaupið var svo hætt að kynna sig sem Ríkisútvarp, útvarp allra landsmanna, heldur notuð skammstöfunin Rúv, sem smám saman enginn veit fyrir hvað stendur.

Það átti að verða eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna að afnema  hlutafélagsformið á útvarpinu og breyta því aftur í Ríkisútvarp allra landsmanna. En til þess höfðu þeir sem réðu ferð  þar á bæ hvorki kjark, vilja eða þor. Ég lagði það ítrekað til og um það var flutt tillaga m.a. af Atla Gíslasyni og fleirum að hf. væri tekið af útvarpinu aftur, en forystumenn ríkisstjórnaflokkanna, Vg og Samfylkingar brast vilja til þess. Ríkisútvarpið á að færa til fyrra forms og það á að vera þjónustustofnun en ekki eins og hvert annað fyrirtæki á samkeppnismarkaði.

Að því leyti er ég sammála ritstjóra Fréttablaðsins:

„Íslendingar hafa ekkert með Ríkisútvarp Páls Magnússonar að gera. Við þurfum öflugt Ríkisútvarp sem rekur sjónvarps- og útvarpsstöð sem lætur ekki afvegaleiðast og blindast í keppni á auglýsingamarkaði. Gott Ríkisútvarp á að losa sig við markaðs- og auglýsingadeildir og sinna því sem einkareknar stöðvar geta ekki sinnt. Ríkisútvarp er ekki fyrirtæki heldur stofnun sem á ekki að vera í samkeppnisrekstri.“

Það þarf að endurvinna stöðu og traust og hlutverk Ríkisútvarpsins, sem þjónustustofnun allra landsmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband