Mannlífsmyndir Vigfúsar á Laxamýri

Einkar hugljúf bók barst mér í hendur á dögunum, smásögur og mannlífsmyndir Vigfúsar Bjarna Jónssonar, fyrrverandi alþingismanns og bónda á Laxamýri í Aðaldal. Vigfús er nú á 85. aldursári en þetta er  fyrsta bók hans. Vonandi endist þessum góða  sagnamanni aldur og þrek til að miðla okkur af brunni sínum í fleiri bókum.

Vigfús er landsþekktur félagsmálamaður og höfðingsbóndi á bökkum Laxár í Aðaldal. Hann er mikill náttúruunnandi og  frásagnargáfan honum eins og ættinni allri  í blóð borin. Stíllinn er léttur og kímin, við það að vera ljóðrænn á köflum. Sögusviðið er nokkuð breitt en þó allt honum nákunnugt og mannlífsmyndirnar verða lesandanum því mjög lifandi.

 Bókin sem er 155 blaðsíðna kilja hefur að geyma 14 smásögur og sagnir : „Vitnisburður hringsins“ sem fannst á beinagrind af konu í klettaskúta lengst frammi á heiðum í nágrenni forns heiðarbýlis, fjarri núverandi byggðum kallar fram aldargamla,  tilfinninga þrungna gleði- og  sorgarsögu tveggja kynslóða, mæðgna þar sem dóttirin fórnaði að lokum  lífinu fyrir heiður sinn og fjölskyldunnar. Í kirkjubókinni stendur aðeins:  „Arna Árnadóttir heimilisföst í foreldrahúsum að Selási í Uppdalasókn, hvarf aðfaranótt hins 28. maí 1890 þá tæpra 19 ára“.

Lífið á fámennum heiðarbýlum fjarri alfarleiðum gat bæði verið hart og svikult.

Fallegar finnst mér ástarsögurnar „Meðlagið“ og „Endurfundir“ en þar nýtur stíll höfundarins sér best eins og ég þekki Vigfús, leiftrandi kímni en jafnframt tilfinningaríkan og rómantískan mann sem elskar mannlífið allt í sinni fjölbreyttu mynd. -  Lestur er sögu ríkari.

Bókasmiðjan á Selfossi gefur bókina út.  Hafi hún og höfundur þökk fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband