Miðvikudagur, 4. desember 2013
ESB endursendir aðildarumsókn Íslands
Með ákvörðun ESB um að afturkalla alla IPA- styrki til Íslands er sambandið í raun að hóta því að senda umsóknina aftur til síns heima. Hættir við einhliða og án fyrirvara .
Sú ákvörðun væri fullkomlega rökrétt af þeirra hálfu. ESB er löngu orðið það ljóst að umsóknin var send þeim á fölskum forsendum, hvorki lá fyrir meirihlutavilji þjóðarinnar fyrir aðild né eindreginn stuðningur allrar ríkisstjórnarinnar við umsóknina á sínum tíma né heldur nú. Umsóknin í raun send til baka
Legið hefur í loftinu að ESB myndi taka frumkvæðið og slíta formlega umsóknar- og aðlögunarferli Íslands að sambandinu. Enda hefur stækkunarstjórinn, Stefan Fule ítrekað sagt að ekki sé sótt um aðild nema til þess að komast inn. Það er ekki í neinn pakka að kíkja, aðeins að uppfylla skilyrði, lög og reglur ESB. IPA-styrkjunum er eingöngu ætlað það hlutverk að styðja breytingar og undirbúa umsóknarríki til inngöngu í ESB í innlimunarferlinu: Instrument for Pre-Accession Assistance (IPA) - Europa
"Bjölluatið" í Brussel gat aldrei gengið upp
Talsmenn ESB hafa aldrei farið dult með tilgang þessara IPA-styrkja þó svo ýmsir Sambandssinnar hér heima hafi haldið öðru fram. Nú hefur ESB sjálft tekið af öll tvímæli með það.
Þeir sem heldu að bæði væri hægt að dansa í kringum gullkálfinn og kíkja í pakkann án þess að brenna sig, hafa heldur betur fengið á baukinn sem reyndar var vitað fyrir.
Talsmenn ESB hafa ávalt lýst því yfir að ekki sé hægt að semja sig frá grundvallar lögum og reglum sambandsins, einungis um tímabundinn aðlögunar tíma frá einstökum ákvæðum:
Úr handbók stækkunarferils ESB:
. Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið. [1] First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable. (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf
Alþingi ber að sýna heiðarleika og afturkalla umsóknina
Ekki verður séð hvaða tilgangi skýrslugerð um stöðu samningaviðræðna þjónar lengur. Ríkisstjórn og Alþingi hlýtur að bregðast við með sama hætti og afturkalla formlega umsóknina af sinni hálfu. Þjóðin var hvort eð er aldrei spurð hvort hún vildi ganga í ESB. En það hefði átt að gera áður en slíkt umsóknar- og aðlögunarferli færi í gang. Það er að mínu mati heiðarlegast og réttast að afturkalla umsóknina formlega eins og lofað var fyrir síðustu kosningar. Með hreint borð getum við lagt áherslu á góð samskipti Íslands og ESB á grunni tvíhliða samninga eins og við gerum við aðrar þjóðir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.