Miðvikudagur, 13. nóvember 2013
Fyrrverandi formaður Heimssýnar aðstoðar forsætisráðherra
Baráttan gegn umsókn að ESB og síðan afturköllun hennar var eitt af stærstu málum á þingi síðasta kjörtímabil og í kosningunum sl. vor.
Ásmundur Einar Daðason var formaður Heimssýnar nánast allt síðasta kjörtímabil og barðist af einurð gegn umsókninni að ESB. Hann yfirgaf Vg meðal annars vegna stefnubreytingar flokksforystunnar og aðlögunarferilsins sem sett var af stað. Fyrir síðustu kosningar lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að umsóknin að ESB yrði afturkölluð hið fyrsta.
ESB- umsóknin er myllusteinn um háls ríkisstjórnarinnar
Flestir bjuggust við því í samræmi við úrslit kosninganna að afturköllun umsóknarinnar yrði afgreidd á sumarþinginu, en urðu fyrir vonbrigðum. Ásmundur gerir sér vel grein fyrir að því að standa verður við kosningaloforðin í þessum efnum sem öðrum og betur má ef duga skal. Mörgum hefur fundist ríkisstjórnin draga lappirnar um of í þessu máli. Lofað hefur verið skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu ESB umsóknarinnar fyrir 15. janúar á næsta ári. Henni á þá að fylgja tillaga til þingsályktunar um afturköllun ESB-umsóknarinnar. Afstaða Ásmundar til ESB umsóknarinnar hefur verið afdráttarlaus. Ráðning hans sem aðstoðarmanns forsætisráðherra ætti að tryggja að staðið verði við kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna um afturköllun umsóknarinnar að ESB strax í upphafi næsta árs.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.