Mánudagur, 21. október 2013
Framsókn að bogna í lykilmálum
Vaxandi vonbrigða gætir vegna fálmkenndra vinnubragða framsóknarmanna í mörgum meginmálum sem þeir hreyktu sér af og lofuðu í síðustu kosningabaráttu. En miklar væntingar eru bundnar við að þeir standi við stóru orðin.
Eftirgjöf í makríl
Sjávarútvegsráðherrann lætur nú ESB kúga sig til undirgefni í makríldeilunni. Samkvæmt fréttum ætlar hann að þiggja úr hnefa ESB aðeins tæp 12% hlutdeild í heildarveiði á makríl. En það er um 30% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum. Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50- 60 þús. tonn af makríl til ESB og Norðmanna. Búast við boði um 12 prósent makrílkvótans , ..Damanaki er hóflega bjartsýn
Að bogna undan hótunum
Svo virðist sem stjórnvöld séu að bogna fyrir ólögmætum hótunum ESB um viðskiptaþvinganir og fleiri refsiaðgerðir. Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga eins og nú er talað um í makríl. Og alls ekki á að bogna fyrir ríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds eins og ESB hefur gert gangvart Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir 95% af útflutningstekjum þeirra.
100 milljarða útflutningsverðmæti í makríl á 4-5 árum
Ég minnist þess fyrir um ári síðan þegar sá orðrómur gekk að þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi boðið ESB að lækka hlutdeild Íslendinga niður í tæp 14% af heildarveiðimagni makríls. Þá höfðu framsóknarmenn á þingi stór orð um svik og undirlægjuhátt ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms gangvart ESB. Verið væri að bogna fyrir hótunum. Ég sem ráðherra taldi lágmarks hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum. Tók ég þar mið af magni og útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu. Lætur nærri að makrílveiði Íslendinga hafi gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur sl. 4-5 ár. Munar um minna. Kynnti sjónarmið Íslands um makrílveiðar fyrir ESB
Makrílstofninn í mjög örum vexti - höldum okkar hlut
Þrátt fyrir allt tal um ofveiði er makrílstofninn áfram í örum vexti og sækir stöðugt inn á ný beitilönd. Líkist hann helst stórri ryksugu í útrás og tekur til sin gríðarlegt magn fæðu sem annars væri étin af öðrum fiskum. Vissulega er nauðsynlegt að hlutaðeigandi þjóðir nái að semja um veiðistýringu og skiptingu veiðiheimilda í makríl. En við Íslendingar megum ekki láta hótanir beygja okkur til að samþykkja niðurlægjandi tilboð ESB eins og nú er látið í veðri vaka. Öðru vísi mér áður brá með yfirlýsingar Framsóknar í makrílmálum.
Orðaskak utanríkisráðherra
Mörgum fannst utanríkisráðherra standa sig vel í upphafi ferilsins en skortir að fylgja málum eftir. Hins vegar er fólk tekið að þreytast á innihaldslitlu orðaskaki ráðherrans við stækkunarstjóra ESB, Stefán Fule. Ísland er umsóknarríki þar til umsóknin er afturkölluð.
Stefna Framsóknarflokksins og loforð fyrir kosningar var refjalausa afturköllun umsóknarinnar að ESB. Skýrslugerð á skýrslugerð ofan lengir í flækjunni og herðir að snörunni hjá Framsókn að standa við kosningaloforðin. Úttekt á aðildarumsókn dregst
Makríllinn skiptir gríðarmiklu máli.
Eftirgjöf Framsóknar í makrílnum, sem liggur í loftinu, er slæm vísbending um framhaldið. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi að við stöndum á rétti okkar í makríl, en lyppumst ekki niður fyrir hótunum ESB eins og nú ú er látið í veðri vak
Kröfur ESB hafa alltaf legið fyrir
Rétt er að minna á að ESB veitir engar varanlegar undanþágur og þarf ekki að gera neina sérstaka skýrslu þar um. Annað hvort ætla menn í ESB eða ekki. Framsókn getur ekki hoppað þar á öðrum fæti frekar en aðrir:Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið. [1] First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable. (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.